Samþykktir Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð 

1. gr.  

Heiti og heimili

Félagið er almennt félag. Nafn þess er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð.  Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur

Tilgangur félagsins er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð skipulagsheilda til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni.

Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og rekstrarafgangi af starfseminni skal varið í samræmi við tilgang félagsins.

3. gr.

Starfsemi

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að skipuleggja fjölbreytta starfsemi til að efla samskipti, samstarf og fræðslu um samfélagsábyrgð.

4. gr.

Félagsaðild

Til að gerast félagi í Festu skulu skipulagsheildir sækja sérstaklega um á þartilgerðu eyðublaði á heimasíðu Festu. Í umsókn skal meðal annars koma fram sú yfirlýsing umsækjanda að hann undirgangist gildi félagsins, siðareglur, markmið og tilgang. Umsækjandi skal um leið tilkynna einn tengilið sem fer með atkvæði félagsins á aðalfundi. Að fenginni umsókn tekur stjórn félagsins afstöðu til umsóknarinnar og telst hún samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir viðkomandi en er ella hafnað.

5. gr.

Úrsögn eða brottvikning

Félaga er heimilt að segja sig úr félaginu frá næstu áramótum að telja og skal þá skrifleg úrsögn hafa borist skrifstofu félagsins í síðasta lagi 30. september. Stjórn Festu getur sagt félaga upp félagsaðild ef hann verður uppvís að brotum á siðareglum félagsins eða greiðir ekki félagsgjald samkvæmt greiðsluskilmálum félagsins. Til þess þarf samþykki a.m.k. 2/3 hluta stjórnarmanna.    

6. gr.

Félagsgjald

Félagi skuldbindur sig til að greiða félagsgjald eins og það er ákvarðað á aðalfundi félagsins hverju sinni. Félagi öðlast full réttindi þegar félagsgjald hefur verið greitt. Félagsgjald er innheimt árlega. Ef félagsgjald er ekki greitt á eindaga er heimilt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga.  Framkvæmdastjóri hefur í sérstökum tilfellum heimild til að semja við nýja félagsmenn um félagsgjald í takmarkaðan tíma.

7. gr.

Aðalfundur, atkvæði og aukafundir

Aðalfundur fer með æðsta vald og ákvörðunarrétt í málefnum félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Til aðalfundarins skal boða með a.m.k. fimm vikna fyrirvara og skal fundarboðið að lágmarki birt á vefsíðu félagsins og sent í tölvupósti á skráða tengiliði félaga. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað.

Á aðalfundi félagsins skulu að minnsta kosti eftirfarandi mál tekin til afgreiðslu:

1) Kosning fundarstjóra og fundarritara

2) Skýrsla stjórnar

3) Reikningar liðins reikningsárs

4) Breytingar á samþykktum félagsins

5) Kosning stjórnar og formanns

6) Kjör löggilts endurskoðanda

7) Ákvörðun félagsgjalds

8) Önnur mál

Rétt til að sækja aðalfund eiga þeir félagar sem eru skuldlausir viku fyrir fundinn. Skráður tengiliður hvers aðildarfélags fer með atkvæðisrétt fyrir hönd viðkomandi félags. Félaga er heimilt að veita öðrum fulltrúa umboð til að sækja aðalfund og fara með atkvæðisrétt sinn gegn skriflegu, dagsettu umboði. Atkvæðavægi mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.

Kjósendur geta kosið jafn marga fulltrúa og fjöldi þeirra stjórnarsæta sem í boði eru, segir til um. Kjósendur hafa mismunandi atkvæðamagn og skiptist það sem hér segir:

Félagar með yfir 200 starfsmenn: 5 atkvæði

Félagar með 50-199 starfsmenn: 4 atkvæði

Félagar með 10-49 starfsmenn og menntastofnanir: 3 atkvæði

Félagar með 2-9 starfsmenn: 2 atkvæði

Félagar með einn starfsmann, einstaklingar og félagasamtök: 1 atkvæði

Stjórn félagsins sem og 1/3 hluti félaga hafa heimild til að óska eftir aukafundum í félaginu. Um aukaaðalfund gilda sömu viðmið og um aðalfund.

8. gr.

Kjörgengi og kosning stjórnarmanna

Stjórn félagsins skal skipuð sjö einstaklingum sem fara með málefni félagsins á milli aðalfunda. Formaður skal kosinn sérstaklega og til eins árs í senn en meðstjórnendur til tveggja ára í senn. Stjórnarkjöri skal haga þannig að hvert ár skal   kjósa formann og þrjá meðstjórnendur í stað þeirra þriggja sem setið hafa í tvö ár. Formaður og stjórn skal kosin í skriflegri atkvæðagreiðslu. Heimilt er að kjósa áttunda stjórnarmann frá samstarfsaðila sem veitir félaginu aðstöðu.

Stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundi félagsins. Þeir félagar hafa kjörgengi og kosningarétt sem eru skuldlausir við félagið viku fyrir aðalfund. Óskað skal eftir framboðum í fundarboði aðalfundar og lýkur framboðsfresti einni viku fyrir aðalfund.

Stjórn skal a.m.k. átta vikum fyrir aðalfund tilnefna tveggja til þriggja manna kjörnefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa og hafa yfirumsjón með stjórnarkjöri. Skal nefndin leitast við að ná jafnræði milli félagsmanna um setu í stjórn, að kynjahlutföll séu sem jöfnust og að eðlileg endurnýjun stjórnarmanna eigi sér stað. Hafi einstaklingur tekið sæti í kjörnefnd hefur hann ekki kjörgengi til embætta sem kosið er um á aðalfundi. Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um formann og stjórnarmenn eftir því sem við á. Tillögur kjörnefndar skulu tilkynntar félagsmönnum a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðrar tillögur skulu hafa borist í síðasta lagi sjö dögum fyrir aðalfund.

9. gr.

Stjórnarstarf

Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi en stjórn velur sér varaformann á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi.

Stjórnin mótar stefnu félagsins í samræmi við tilgang þess og skal sjá til þess að skipulag og starfsemi þess sé jafnan í lögmætu og góðu horfi. Undirskrift meirihluta stjórnar skuldbindur félagið. Stjórn skal ráða félaginu framkvæmdastjóra sem skal framfylgja stefnu félagsins og reglum um skipulag.

Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. ársfjórðungslega. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Stjórnarfundir eru lögmætir ef að minnsta kosti fjórir stjórnarmenn sækja fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að þær hafi verið kynntar öllum stjórnarmönnum. Falli atkvæði stjórnarmanna jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerðir um stjórnarfundi.

10. gr.

Aðrar stjórnareiningar

Framkvæmdastjóri félagsins annast daglegan rekstur félagsins samkvæmt starfslýsingu sem er endurskoðuð árlega og samþykkt af stjórn félagsins. Hann skal ráðinn í opnu og faglegu ráðningarferli samkvæmt hæfniskröfum sem stjórn ákveður hverju sinni. Sitjandi stjórnarmaður getur ekki gegnt starfi framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir óska.

Stjórn félagsins er heimilt að skipa faghópa varðandi einstaka þætti sem tengjast starfsemi félagsins.

11. gr.

Endurskoðendur

Stjórn félagsins skal velja löggiltan endurskoðanda til að endurskoða reikninga félagsins fyrir hvert starfsár. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna félagsins.

12. gr.

Reikningsárið

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

13. gr.

Breyting samþykkta og slit félagsins

Breytingar á samþykktum félagsins skulu gerðar á aðalfundi félagsins. Tillögur um þær skulu berast formanni og framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund félagsins og þeir sjá um að áframsenda þær í kjölfarið á félaga, eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund. Að lágmarki 2/3 samanlagðra atkvæða á lögmætum aðalfundi þarf til að samþykkja breytingar á samþykktum.

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi félagsins og um hana gilda sömu reglur og um breytingar á samþykktum félagsins. Við slit félagsins skal eignum þess ráðstafað í þágu þeirra markmiða sem fram koma í 2. gr.

Reykjavík, 09. apríl 2019