Siðareglur Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð

Siðareglum Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð er ætlað að varðveita orðspor, fagmennsku og trúverðugleika  miðstöðvarinnar. Stjórn, starfsmenn og félagar í Festu skulu vinna eftir gildum Festu; heiðarleika, þekkingarmiðlun og samvinnu. Aðilar leggja sig fram um að miðla og efla þekkingu og stuðla að málefnalegri, faglegri og gagnrýnni umræðu á sviði samfélagsábyrgðar.

Starfsemi Festu

  • Stjórnarmenn og starfsmenn Festu sem taka þátt í opinberri umræðu eru faglegir og meðvitaðir um ábyrgð sína.
  • Stjórn og starfsfólki viðhefur opna og upplýsta umræðu við ákvörðunartöku.
  • Stjórn og starfsfólk gerir ekkert í störfum sínum sem skaðar orðstír Festu.
  • Stjórn og starfsfólk vinnur saman af heilindum og forðast að láta persónulega hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.
  • Stjórn og starfsfólk gætir þess að láta ekki pólitískar eða trúarlegar skoðanir hafa áhrif á fagleg störf sín fyrir Festu.
  • Gæta skal þess að fara vel með fjármuni og önnur verðmæti sem stjórn og starfsmönnum er trúað fyrir eða þeir hafa til umráða.
  • Stjórn og starfsfólk kemur fram af virðingu og kurteisi óháð trú, kyni stjórnamálskoðunum eða annarri mögulegri aðgreiningu og beitir ekki aðra einelti, áreitni eða ofbeldi af neinu tagi.
  • Stjórn og starfsfólk gætir þagmælsku um atriði sem þau fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara. Þagmælska skal virt eftir að viðkomandi lætur af störfum fyrir félagið.

Félagar í Festu – fyrirtæki og stofnanir

  • Félagar í Festu leitast við að stunda ábyrga starfsemi og gefa rétta mynd af samfélagsábyrgð sinni.
  • Félagar koma ætíð fram af fagmennsku og láta ekki sérhagsmuni hafa áhrif á starfssemi Festu.
  • Félagar hagnýta sér ekki upplýsingar hver um annan, á óeðlilegan máta og  fjalla um mál hvers annars í trúnaði og af nærgætni og heiðarleika.
  • Félagar sýna öðrum  traust í þekkingarmiðlun á vegum Festu, svo sem félagsfundum eða lokuðum spjallsvæðum.
  • Félagar, t.d ráðgjafar og ráðgjafafyrirtæki, skulu nýta ekki nýta viðburði Festu, svo sem lokuð spjallsvæði eða fundi, í þeim tilgangi að skapa sér viðskipti við félagsmenn, nema það sé yfirlýstur tilgangur viðburðarins.

Siðareglurnar eru ekki tæmandi lýsing á góðum starfsháttum, heldur ber hver og einn ábyrgð á því að starfa í anda gilda Festu af heiðarleika og stuðla að þekkingarmiðlun og samvinnu. Allir félagar bera ábyrgð á því að siðareglunum sé fylgt.

Stjórn Festu tilnefnir eftir þörfum þriggja manna siðanefnd sem úrskurðar um brot.  Ábendingar um brot skulu berast stjórn. Brot á siðareglunum geta varðað áminningu en einnig missi félagsaðildar ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.

Siðareglurnar endurskoðist árlega til samþykktar á aðalfundi félagsins.

Siðareglur þessar voru samþykktar á aðalfundi Festu þann 23. apríl 2013
Bætt var inn áhersluatriðum nr. 7 og 8 í kaflanum um „Starfsemi Festu“ á aðalfundi 25. apríl 2018