Um samfélagsábyrgð

Í sinni einföldustu mynd felst samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og stofnana í því að þau axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið. Samfélagábyrgð fyrirtækja miðar að jafnvægi þar sem úr verður gagnkvæmur ávinningur fyrir samfélagið og fyrirtækin sjálf. Ábyrg félög eru þau sem með markvissum hætti skipuleggja starfsemi sína þannig að þau skaði ekki samfélagið og umhverfið heldur hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins. Alþjóðlegu staðlasamtökin orða það svo í sinni skilgreiningu, að samfélagsábyrgð sé öxluð er með gegnsærri og siðferðilegri háttsemi, sem:

  • stuðlar að sjálfbærri þróun, þar með talið heilsufari og velferð samfélagsins
  • tekur mið af væntingum hagsmunaaðila
  • fylgir gildandi lögum og samræmist alþjóðlega viðtekinni háttsemi
  • hefur verið innleidd innan félagsins og viðhöfð í öllum samskiptum þess.[1]

Evrópusambandið hefur sett fram stefnu um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem er á svipuðum nótum en leggur að auki áherslu á að samfélagslega ábyrg félög samþætti væntingar til félagsins um samfélagsþætti, umhverfi, siðferði, mannréttindi og neytendamál inn í starfshætti sína til að:

  • skapa sameiginlegt virði fyrir eigendur, aðra hagaðila og samfélagið
  • koma auga á, fyrirbyggja og draga úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum sínum.[2]

Það má segja að samfélagsábyrgð fyrirtækja sé hvoru tveggja í senn bremsubúnaður og aflgjafi. Ábyrg félög koma sér upp gildum, ferlum og skipulagi til að koma í veg fyrir að félagið valdi skaða með starfsemi sinni, eða bremsi sig af þegar farið er of geyst eða glannalega. Samfélagsábyrgð felst einnig í að félög tileinki sér það viðhorf að þau geti haft jákvæð áhrif á samfélagið á sama tíma og viðskiptalegum árangri er náð. Með nýsköpun í vörum og þjónustu félagsins og samskiptum þess við hagaðila sína getur félagið skapað ný verðmæti til hagsbóta fyrir bæði sig og samfélagið. Samfélagslega ábyrg hugsun er þannig einnig aflgjafi og uppspretta nýrra viðskiptatækifæra sem veitir félaginu innblástur og kraft til að bæta árangur sinn.

 


[1] Alþjóðlegu staðlasamtökin – ISO, Alþjóðastaðall ISO 26000 – Leiðbeiningar um samfélagslega ábyrgð, 2010. Genf, ISO.
[2] Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, A renewed EU strategy 2011-14 for Corporate Social Responsibility, 2011, Brussel, sótt 1.7.2013 af http://ec.europa.eu/enterprise/policies/sustainable-business/corporate-social-responsibility/index_en.htm