Þarf að hvetja til ábyrgrar ferðaþjónustu?

Þarf að hvetja til ábyrgar ferðaþjónustu?

Ferðamenn sem til Íslands koma gera sífellt meiri kröfur um gæði þjónustunnar sem þeir kaupa og þeir bera hana saman við bestu ferðamannastaði í heimi.  Ferðamenn vilja geta treyst ferðaþjónustunni og deila upplifun sinni jafnóðum með umsögnum og myndum sem birtast samtímist út um allan heim. Samkeppnin er hörð og ferðaþjónustufyrirtæki með hugsunarhátt gullgrafara sem tjaldar til einnar nætur eru skammlíf og geta skemmt orðstír Íslands.

Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi dregur fram ýmsar áskoranir sem tengjast samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar má telja aukinn ágang á náttúruna, að réttindi starfsfólks séu virt, að nærsamfélögin sem ferðamenn heimsækja fái sanngjarnan skerf af ávinningnum og ekki síst að öryggi ferðamanna sé tryggt og þeim veitt góð þjónusta.

Það er því á þessum grunni sem Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn efla til hvatningarverkefnis um ábyrga ferðaþjónustu. Verkefnið felur í sér að fyrirtæki skrifa undir einfalda og skýra yfirlýsingu um að þau muni bjóða ábyrga ferðaþjónustu. Fyrirtækjunum verður í kjölfarið boðin fræðsla um ábyrga starfshætti og sjálfbærni. Samstarfsaðilar að verkefninu eru SAF, Ferðamálastofa, Íslandsstofa, Höfuðborgarstofa, Markaðsstofur landshlutanna og Safetravel.

Í dag sýnir fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu fagmennsku og ábyrg vinnubrögð. Sífellt fleiri taka upp markviss umhverfis og gæðakerfi eins og t.d Vakann sem er orðið þekkt og virt kerfi innan ferðaþjónustunnar.  Hvatningarverkefnið „Ábyrg ferðaþjónusta“ á bæði við um þá sem eru núþegar komnir vel á veg og eru fyrirmyndir, eins og þau fyrirtæki sem eru enn í startholunum og vilja setja sér mælanleg markmið í sjálfbærni og samfélagsábyrgð.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson er verndari verkefnisins, sem undirstrikar að góður orðstír ferðaþjónustunnar skiptir okkur öll máli.

Yfirlýsingin um ábyrga ferðaþjónustu verður undirrituð þann 10.janúar.  Við hvetjum öll fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu til að skrá fyrirtæki sitt til þátttöku í verkefninu. Skráning fer fram á heimasíðu Festu, www.festasamfelagsabyrgd.is

Bakhjarlar:    Bláa Lónið – Eimskip – Gray Line Iceland – Icelandair Group – Isavia – Íslandshótel og Landbankinn

[Greinin birtist í Fréttablaðinu 5.1.2017]

Ketill Berg Magnússon er framkvæmdastjóri FESTU – miðstöðvar um samfélagsábyrgð

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir er klasastjóri Íslenska ferðaklasans.

Comments are closed.