Skylda fyrirtækja að sýna samfélagsábyrgð

Með nýjum lögum um ársreikninga fyrirtækja er það ekki lengur kostur heldur skylda hjá fyrirtækjum með fleiri en 250 starfsmenn að gera grein fyrir samfélagsábyrgð sinni árlega. Félögin þurfa þannig í ársreikningi sínum að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif í tengslum við umhverfi sitt ásamt félags- og starfsmannamálum. Þau þurfa jafnframt að gera grein fyrir stefnu sinni í mannréttindamálum og hvernig þau sporna við spillingar- og mútumálum.
Þessi breyting á lögunum tekur gildi strax fyrir ársreikninga félaganna fyrir árið 2016. Breytingin á sér stað út um alla Evrópu og hefur því áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu. Mörg íslensk fyrirtæki hafa séð þessa þróun fyrir og hafa úr árabil gert grein fyrir samfélagsábyrgð sinni í sérstökum samfélagsskýrslum eða sem hluta af ársskýrslu sinni.

Félögin þurfa þannig í ársreikningi sínum að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif í tengslum við umhverfi sitt ásamt félags- og starfsmannamálum.

Fjölmörg fyrirtæki í heiminum hafa opnað augun fyrir því að þrönga hagnaðarsjónarmiðið eitt og sér hvorki dugar né er siðferðislega rétt. Ábyrg félög eru þau sem með markvissum hætti skipuleggja starfsemi sína þannig að þau skili fjárhagslegum ávinningi og hafi á sama tíma jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið. Framtíðarsýn okkar hjá Festu er að íslensk fyrirtæki verði þekkt fyrir samfélagsábyrgð sína, ábyrga umgengni um náttúruna og þann ávinning sem þau skapa fyrir samfélagið.

Fjölmörg fyrirtæki í heiminum hafa opnað augun fyrir því að þrönga hagnaðarsjónarmiðið eitt og sér hvorki dugar né er siðferðislega rétt.

Mörg íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum misserum sýnt frumkvæði um samfélagsábyrgð. Loftslagsmálin eru dæmi um aðkallandi samfélagslega áskorun fyrir þjóðir heims. Fyrir rúmu ári tóku liðlega 100 fyrirtæki áskorun Festu og Reykjavíkurborgar um að dragar úr losun gróðurhúsalofttegunda og sorps. Annað dæmi um samfélagslega áskorun er aukning ferðamanna til landsins. Nýlega aðstoðuðu Festa og Ferðaklasinn, í samstarfi við aðila ferðaþjónustunnar og undir verndarvæng forseta Íslands, tæplega 300 ferðaþjónustufyrirtæki, við að undirrita samkomulag um skýrar og einfaldar leiðir um ábyrga ferðaþjónustu. Fyrirtækin eru sammála um að samfélagsábyrgð er lykilþáttur í að treysta ímynd og sjálfbærni Íslands. Ferðaþjónustufyrirtækin ætla með markvissum hætti að vernda náttúruna, tryggja öryggi ferðamanna, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélögin sem ferðamenn sækja heim.

Fyrirtækin eru sammála um að samfélagsábyrgð er lykilþáttur í að treysta ímynd og sjálfbærni Íslands.

Hlutverk hins opinbera er gríðarlega mikilvægt fyrir þróun samfélagsábyrgðar fyrirtækja á Íslandi og eigi árangur að nást er samvinna fyrirtækja og hins opinbera nauðsynleg. Það er einkum þrennt sem stjórnvöld ættu að einbeita sér að. Í fyrsta lagi ættu stjórnvöld að setja fram skýra og spennandi framtíðarsýn um sjálfbærni og samfélagsábyrgð á Íslandi. Í öðru lagi mætti styðja betur við og hvetja fyrirtæki og einstaklinga til góðra verka með skattaafsláttum, innviðauppbyggingu og örðum stuðningsleiðum. Í þriðja lagi ættu stjórnvöld og sveitafélög að ganga fram með góðu fordæmi og tryggja ábyrga og gagnsæja, stjórnarhætti stjórnsýslunnar en ekki síður að stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera séu fyrirmyndir og innleiði samfélagsábyrgð í alla starfsemi sína. Ýmislegt í nýjum stjórnarsáttmála bendir til að samfélagsábyrgð verði á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. Má þar nefna áherslur í umhverfismálum, mannréttindi og jafnrétti. Festa hvetur stjórnvöld til að styðja við samfélagsábyrgð fyrirtækja og býðst til að leggja því verkefni lið.

Greinin er eftir Ketil Berg Magnússon og birtist í Morgunblaðinu 27. janúar 2017

Comments are closed.