Yfirsýn og hagnýt ráð á Janúarráðstefnunni 2017

Festa og SA héldu sína árlegu Janúarráðstefnu um Samfélagsábyrgð þann 26. janúar í Hörpu undir yfirskriftinni Árangur og ábyrg fyrirtæki.

Í opnunarávarpi sínu sagði Finnur Sveinsson, formaður stjórnar Festu, frá því að mikil breyting hafi orðið á orðræðunni um samfélagsábyrgð undanfarin ár. Festa hefur unnið í samstarfi við fjölmarga aðila að mikilvægum málefnum, eins og loftslagsmarkmiðum fyrirtækja með Reykavíkurborg og Ábyrgri ferðaþjónustu með Íslenska ferðaklasanum. Finnur nefndi að oft væri Festa að koma málum á dagskrá sem ekki væri ljóst hvernig ætti að leysa. Hann líkti Festu því við verkefnastofu hjá NASA sem stofunð var þegar koma átti mönnum á tunglið. Hún var kölluð Department of things which cannot be done og leysti ótal fyrirstöður að þessu verðuga marki.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi samfélagsábyrgðar í rekstri fyrirtækja og hvatti íslensk fyrirtæki til að gerast aðili að Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Frjálst markaðshagkerfi þarf að vera í góðri sátt við það samfélag sem fyrirtækin starfa í til að þau nái árangri.

Aðalræðumaður ráðstefnunnar var fyrrum framkvæmdastjóri UN Global Compact og núverandi varaformaður stjórnar Arabesque Partners fjárfestingasjóðsins, Georg Kell. Georg fór yfir þá helstu strauma sem hafa áhrif á samfélagsábyrgð fyrirtækja í heiminum í dag. Georg sagði að vissulega væru þess merki í stjórnmálum um allan heim, bæði vestan hafs og úr austri, að valdamenn hugsuðu ekki um heildina heldur um þrönga hagsmuni síns ríkis. Þetta eru hins vegar tímabundin áhrif því að undirliggjandi væri djúp nauðsyn þess að huga að sameiginlegum áskorunum allra jarðabúa, svo sem loftslagsmálum og mannréttindum.

Georg vill meina að fjármálamarkaðurinn muni hafa mikil áhrif á samfélagsábyrgð fyrirtækja næstu árin því að með aukinni tækni mun aðgengi að upplýsingum um rekstur fyrirtækja stóraukast. Hann vitnaði í metarannsókn sem Arabesque Partners birtu í skýrslunni From The Stockholder to The Stakeholder þar sem vitnað er í fjölda rannsókna sem sýna að ábyrg fyrirtæki standa sig betur en meðatal annarra fyrirtækja þegar til lengri tíma er litið. Gagnsæi er hér lykilhugtak og munu fyrirtæki þurfa að gera skipulega grein fyrir samfélagsábyrgð sinni, þ.e. áhrifum sínum á umhverfið, á samfélagið og á stjórnarhætti sína, (það sem á ensku kallast ESG mælikvarðar). Nú hafa kauphallir út um allan heim gefið út leiðbeiningar til skráðra fyrirtækja um hvernig þau geta miðlað samfélagsábyrgð sinni og Georg telur að þessi þróun mælikvarða um samfélagsábyrgð muni hafa jafnmikil áhrif á fjárfestingar eins og röntgenmyndataka hafði á læknisfræði.

Georg telur að þessi þróun mælikvarða um samfélagsábyrgð muni hafa jafnmikil áhrif á fjárfestingar eins og röntgenmyndataka hafði á læknisfræði.

Á ráðstefnunni sögðu einnig íslenskir forstjórar reynslusögur af ávinningi samfélagsábyrgðar í sínum rekstri. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel, sagði frá því hvernig starfsemi Marel er tengist náið heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með framleiðslu sinni á tæknilausnum til matvælaframleiðslu. Fyrirtækið hefur nýlega fléttað samfélagsábyrg inn í kjarnastefnu sína og vinnur nú að því að innleiða stefnuna hjá á starfstöðvum sínum í yfir 30 löndum meðal 4.700 starfsmanna. Marel notar tækni og nýsköpun á markvissan hátt til að auðvelda viðskiptavinum sínum að spara vatn og orku og nýta hráefni mun betur. Upplýsingatæknin þeirra auðveldar einnig rekjanleika matvörunnar sem unnin er í tækjum frá Marel og eikur þannig fæðuöryggi neytenda. [Glærur Ásthildar]

Marel notar tækni og nýsköpun á markvissan hátt til að auðvelda viðskiptavinum sínum að spara vatn og orku og nýta hráefni mun betur.

Þórarinn Ævarsson, forstjóri IKEA á Íslandi sagðist vera stoltur af samfélagsábyrgð IKEA og öllum þeim mikilvægu verkefnum sem fyrirtækið tekur þátt í. Fram kom meðal annars í máli hans að fyrirtækið stuðlar að orkusparnaði með því að selja ódýrar LED perur og bjóða uppá hraðhleðslustöðvar. IKEA hefur styrkt flóttafólk sem hingað hefur komið með myndarlegum hætti og undanfarin 10 ár hefur fyrirtækið styrkt forvarnarstarf gegn slysum barna um 150 milljónir. Þetta forvarnarstarf hefur skilað því að dauðsföll barna vegna slysa eru hvergi í heiminum færri en á Íslandi, en þetta hefur vakið heimsathygli.

Sama dag og Seðlabankinn hækkaði stýrivexti, hefði IKEA gefið út vörulistan sinn til næstu 12 mánaða með föstu verði sem lækkað hafði um 2,8%

En það voru ekki þessi verkefni sem Þórarni voru hugleikin. Hann vildi ræða hvernig fyrirtæki geta haft víðtæk áhrif á samfélagið með því að tryggja að verðlag verði hér ekki of hátt. Í því sambandi minntist hann þess að 19. ágúst 2015, sama dag og Seðlabankinn hækkaði stýrivexti, hefði IKEA gefið út vörulistan sinn til næstu 12 mánaða með föstu verði sem lækkað hafði um 2,8%. Þvert á önnur fyrirtæki og spá Seðlabankans hefði verðbólgan ekki hækkað og styrking krónunnar hefði gefið af sér mikinn kaupmátt. Rekstur IKEA hefur gengið vel síðan og sýnir, að mati Þórarins, að það var ekki nokkur þörf á verðhækkunum. Þetta segir Þórarinn vera langstærsta innlegg IKEA í samfélagsábyrgð og hefur skapað gagnkvæman ávinning fyrir jafnt samfélagið og IKEA. [Þórarinn var ekki með glærur]

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels lýsti því hvernig fyrirtækið hefur unnið markvisst að innleiðingu umhverfisstefnu í fyrirtækinu. Stuðst hefur verið við alþjóðlega staðalinn ISO 14001 og hafa nú allar starfstöðvar fyrirtækisins hlotið slíka vottun. Magnea segir það afar mikilvægt fyrir fyrirtækið að geta sýnt gestum sínum fram á alþjóðlega staðfestingu á umhverfisstarfi sínu. Icelandair Hotels var fyrsta fyrirtækið í Icelandair Group til að vinna að umhverfismálum með þessum markvissa hætti og nú er unnið að því að öll önnur fyrirtæki í samstæðunni fylgi þeirra fordæmi. [glærur Magneu]

Aðspurð sagðist Magnea það vera ákaflega mikilvægt að rekstur eins og hótelrekstur þeirra sé í góðri sátt við samfélagið sem þau starfa í

Aðspurð sagðist Magnea það vera ákaflega mikilvægt að rekstur eins og hótelrekstur þeirra sé í góðri sátt við samfélagið sem þau starfa í. Það er hreinlega lífsnauðsynlegt, segir hún. Mun auðveldara sé að innleiða umhverfisstjórnun í byrjun, þegar verið er að byggja hótel heldur en að breyta gömlum hótelum, því þá er hægt að hanna reksturinn með það í huga. Það er því hagkvæmast að taka samfélagsábyrgðina inn í reksturinn frá upphafi.

 

Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og stýrði hún pallborðsumræðum að framsögunum loknum. Þar voru fyrirtækin meðal annars spurð hvaða ráð þau vilji gefa nýrri ríkisstjórn til að auðvelda fyrirtækjum að innleiða samfélagsábyrgð í reksturinn. Einnig voru fyrirtækin spurð hvort þau hefðu sett sér stefnu um að bjóða hreyfihömluðum störf eða að kaupa vörur sem framleiddar eru á vinnustöðum hreyfihamlaðra.

Að loknu hléi til næringar og tengslamyndunar voru haldnar þrjár málstofur um innleiðingu á samfélagsábyrgð. Málstofan „Að mæla árangur samfélagsábyrgðar“ var í umsjón Sigurborgar Arnardóttur, hjá Össuri. Þar gafst þátttakendum tækifæri á að ræða mismunandi leiðir til að setja vinnuna um samfélagsábyrgð í mælanlegan farveg.

Vinnustofa um loftslagsmál undir yfirskriftinni „Loftslagsmál – áhrif á fyrirtækið þitt og viðbrögð“ var í umsjón Hrannar Hrafnsdóttur, hjá Reykjavíkurborg. Þar var farið yfir grunnatriði og áskoranir í loftslagsmáum og gefin hagnýt ráð til að setja loftslagsmarkmið í fyrirtækjum. Meðal annars voru kynntar aðferðir og viðmið sem þróuð hafa verið í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar.

Þá var haldin vinnustofa sem hét „Forgangsröðun og fókus og það að velja verkefni sem skipta máli“. Hún var í umsjá Þorsteins Kára Jónssonar hjá Marel. Þorsteinn Kári lýsti m.a. þeim aðferðum sem Marel hefur stuðst við í sinni innleiðingu á samfélagsábyrgð. Gestur vinnustofunnar var Hrefna Sigríður Briem, forstuðumaður BS náms í Háskólanum í Reykjavík og kennari í stefnumótun fyrirtækja.

Á meðan gestir á Janúarráðstefnunni áttu hlé frá dagskránni til að nærast og efla tengslanet sitt, buðu nokkur fyrirtæki uppá kynningu á starfsemi sinni. Þar má telja Eflu, verkfærðistofu, Odda sem selur umhverfisvænar lausnir og Umhverfisstofnun með og norræna umhverfismerkið Svanurinn.

Ljósmyndir af ráðstefnunni tók Bryndís Hrönn fyrir Festu.

Comments are closed.