Margir hæfir vilja vinna að samfélagsábyrgð

Alls bárust 49 umsóknir um stöðu verkefnastjóra hjá Festu

Festa auglýsti í lok ágúst eftir verkefnastjóra í hálft starf í til að sinna miðlun og viðburðastjórnun. Umfang starfsemi Festu hefur aukist mikið undanfarin misseri, en nú eru tæplega 100 fyrirtæki aðilar að Festu og mikið af fræðsluviðburðum og samstarfsverkefnum á dagskrá. Fyrirtæki sjá í auknum mæli hag sinn í að vinna markvisst að samfélagsábyrgð og sjálfbærni sinni. Dæmi um það er Loftslagsyfirlýsing fyrirtækja, sem Festa vinnur að í samstarfi við Reykjavíkurborg og yfir eitthundrað fyrirtæki taka þátt í, og hvatningarverkefnið Ábyrg ferðaþjónusta sem Festa vinnur með Ferðaklasanum í samstarfi við alla aðila ferðaþjónustunnar og yfir 300 ferðaþjónustufyrirtæki hafa undirritað.

Alls bárust 49 umsóknir um starfið. Athygli vekur hve hæfni og menntunarstig umsækjenda er hátt, en 34 hafa lokið meistaraprófi og sex til viðbótar eru að leggja lokahönd á slíkt nám. Umsækjendur hafa flestir víðtæka og mikla reynslu sem nýst gæti í starfinu. Mun fleiri konur en karlar sóttu um eða 41 kona (84%) og 8 karlar.

Við erum mjög ánægð með viðbrögðin og teljum þau sýna að mikið af vel menntuðu og hæfileikaríku fólki hefur áhuga á að vinna að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Nú er verið að vinna úr umsóknunum og meta með faglegum hætti hver verður fyrir valinu í stöðu verkefnastjóra. Stefnt er að því að viðkomandi hefi störf núna 1. október 2017.

Comments are closed.