Árangursrík loftslagsmarkmið

Staða loftslagsmarkmiða fyrirtækja dregin saman

Nýverið var tekin saman skýrsla um stöðu loftslagsmarkmiða fyrirtækjanna sem í nóvember 2015 skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Skýrslan er afar fróðleg og sýnir hvernig fyrirtæki eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangs. Festa_Skýrsla_Final.

Fyrirtækin nefna ýmis hagnýt dæmi um aðgerðir og markmið. Í mörgum tilfellum hefur strax orðið fjárhags- og samfélagslegur ávinningur af aðgerðnum, en annars staðar er of snemmt að segja til um það. Víða kemur í ljóst að það getur verið tímafrekt og nokkuð flókið að setja mælanleg markmið um loftslagsmál fyrirtækja. Fyrirtækin eru þó viss um ágæti loftslagsmarkmiðanna, en 98% svarendanna hafa trú á verkefninu fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Fram kemur að þau fyrirtæki sem tekið hafa þátt í fræðsludagskrá Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmarkmiðin telja hana gagnlega. Fræðsludagskráin nýttist “[m]jög vel til að átta sig á aðgerðum tengdum verkefninu og fræðast um málaflokkinn. Gott að læra af öðrum fyrirtækjum,” skrifaði einn svarenda.

Hrönn Hrafnsdóttir hjá Reykjavíkurborg segist „hrósa fyrirtækjunum fyrir að hafa tekið þetta frumkvæði í loftslagsmálum og skapað sameiginlega og skýra aðferð til að mæla losun gróðurhúsalofttegunda og úrgans. Við erum að mæla flókið fyrirbæri og setja um það markmið og erum erum búin að búa til mælitækið. Svipað og þegar byrjað var að mæla þyngd á fiski sem berst á land og við værum að koma okkur saman um löggilta vog“.

Meðal aðgerða sem fyrirtækin telja að skiluðu mestu kennir margra grasa:
• Betri nýting á hráefni skilar mestu.
• Minni akstur og fækkun flugferða erlendis.
• Bætt flokkun þ.a. unnt sé að sýna fram á hver staðan er, setja markmið og mæla hvernig þeim er náð.
• Samgöngustefna sem hvetur starfsmenn til að koma á vistvænan hátt í vinnuna, gefa strætókort, samgöngusamningar, leigja rafmagnsbíl.
• Í öllum ráðgjafaverkefnum verði hugað að umhverfisþáttum og sérfræðingar hvattir til að leita leiða til að minnka áhrif í hönnun og ræða umhverfisvænni valkosti við verkkaupa. Þessi þáttur skilar mestu í stóru myndinni.
• Skipuleggja lengri ferðir með því að sameina ferðir, t.d. ferðir til höfuðborgarinnar.
• Kolefnisjöfnun flugferða og aðgerðir í tengslum við rafmagnsnotkun í húsinu.
• Metan- og rafbílar.
• Sparnaður á eldsneyti og flokkun úrgangs
• Notkun rafmagnsbíla innan svæðis. Rútuferðir fyrir starfsmenn.
• Endurbætur í kerskála sem stuðla að minni PFC losun.
• Lágmörkun á úrgangi frá framleiðslu.
• Afkastameiri skip og breytt skipulag veiða.
• Rafvæðing fiskmjölsverksmiðja.
• Sorpflokkunarstöðvar og fræðsla til starfsfólks um samfélagsábyrgð og flokkun sorps.
• Minnkuð notkun einnota mála og kaup á rafmagnsbílum í stað bensínbíla.
• Sorpflokkun og minnkun á úrgangi.
• Nýting á koltvísýringi sem kemur upp á yfirborð við jarðhitavinnslu.
• Glaðloftsnotkun minnkar á milli ára.
• Akstur starfsmanna á eigin bíl í vinnuferðum, flug í vinnuferðum, akstur starfsmanna í og
• úr vinnu, akstur vegna flutninga á líni og mat og úrgangur.
• Endurskoðun ferla í úrgangsmálum.
• Nýting notaðra bílavarahluta og framrúða og notkun rafbíls.
• Markviss vinna á skipum félagsins leiddi til verulegs árangurs á milli áranna 2015 og 2016.

Skýrslan um loftslagsmarkmiðin sýnir stöðuna hjá þeim fyrirtækjum sem svöruðu könnuninni í vor. Festa mun bjóða fyrirtækjum að uppfæra stöðu sína í lifandi töflu á vefsvæði um loftslagsmarkmiðin.

Festa og Reykjavíkurborg bjóða fyrirtækjum áfram uppá hagnýta fræðslu um gerð loftslagsmarkmiða. Síðast var vinnustofa um loftslagsmarkmið 12. september þar sem sérfræðingar og fulltrúar fyrirtækja kynntu hagnýtar aðferðir.

Þann 18. september mun Reykjavíkurborg í tilefni Samgönguviku afhenta sína árlegu samgönguviðurkenningu fyrirtækja og stofnanna. Festa og Reykjavíkurborg bjóða að því tilefni uppá fræðslufund um samgöngumál. Nánari upplýsingar er að finna á vef Reykjavíkurborgar.

Comments are closed.