Ábyrg ferðaþjónusta efst á baugi hjá ferðamálaráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar fór með ávarp á Uppskeruhátíð verkefnisins – Ábyrg ferðaþjónusta – þann 7. desember á Hotel Reykjavík Natura.

Í ávarpi sínu undirstrikaði Þórdís áherslu ríkisstjórnarinnar að tryggja ferðaþjónustu á heimsmælikvarða og taldi hún að markmiðum Ábyrgrar ferðaþjónusta yrði að fylgja eftir með festu. Hún brýndi auk þess mikilvægi samvinnu ferðaþjónustufyrirtækja, samtaka og yfirvalda í málaflokknum.

Í viðtali eftir fundinn lagði hún áherslu á að fyrirtæki í greininni þyrftu að sýna samfélagsábyrgð til að hreinlega lifa af. Hún fór auk þess yfir stefnu ríkisstjórnarinnar um ferðaþjónustu og taldi samfélagsábyrgð snerta alla þætti stefnumótunar í greininni með beinum eða óbeinum hætti. Myndbandið í heild sinni má finna hér.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni og er tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Með ábyrgri ferðaþjónustu er átt við að fyrirtækin axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið.

Yfirlýsingin í heild sinni er hér að neðan og var hún var undirrituð á Háskólanum í Reykjavík 10. janúar 2017. Við óskum eftir þátttöku þinni í verkefninu og hvetjum þig til að skrá þitt fyrirtæki til leiks.

Skráning í Ábyrga ferðaþjónustu

 Festa, í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, mun í framhaldinu á árinu 2018 bjóða þátttakendum uppá fræðslu og stuðning auk þess verður verkefnið vettvangur fyrir umræðu og nýsköpun um sjálfbærni og samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu.

Comments are closed.