Festa og Creditinfo í samstarf um framúrskarandi ábyrgð

Þann 24. janúar 2018 mun Creditinfo, í samstarfi við Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, í fyrsta sinn veita fyrirtæki viðurkenninguna „Framúrskarandi ábyrgð.”

 

Creditinfo hefur undanfarin ár veitt fyrirtækjum sem hafa sýnt fjárhagslega ábyrgð viðurkenningu og útnefnt þau Framúrskarandi fyrirtæki en að þessu sinni verður viðurkenningin einnig veitt fyrir Framúrskarandi ábyrgð.

Viðurkenningin verður veitt fyrirtæki sem hefur í starfi sínu unnið markvisst að því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem það starfar í, jafnframt því að sýna fjárhagslega ábyrgð.

Festa hvatti Creditinfo til að víkka út viðurkenninguna þannig að hún tæki einnig mið af því hvort fyrirtækin væru samfélagslega ábyrg. Ekki væri nóg að sýna fjárhagslega ábyrgð, fyrirtækin ættu einnig að sýna hvort þau hefðu jákvæð áhrif á náttúru og fólk í samfélagi sínu.

Creditinfo tók áskoruninni vel og fékk Festu til að aðstoða við skipulag. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur fyrirtækja felur í sér að fyrirtæki hámarki jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi viðurkenning verður veitt og því er þetta tilraunarverkefni. Festa tók að sér að hanna valviðmið, verklag dómnefndar og velja sérhæft fólki í dómnefnd. Festa og Creditinfo hafa jafnframt gert með sér samstarfssamning sem miðar að því að þróa viðurkenninguna áfram svo hún geti verið endurtekin á verðlaunaathöfninni árið 2019.

Valviðmiðin sem dómnefndin notaði eru eftirfarandi:

  • Hefur fyrirtækið sett sér skriflega stefnu um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og birt á vef sínum?
  • Tekur stefnan á félagslegum-, umhverfis- og stjórnarháttum?
  • Hversu fjölbreyttir eru þættirnir sem stefnan nær utan um?
  • Hversu mikil tenging er milli samfélagsábyrgðarstefnu og kjarnastarfsemi fyrirtækisins? (er t.d. bara verið að flokka pappír á skrifstofunni og styrkja íþróttafélag þótt þetta sé fiskeldisfyrirtæki?)
  • Hversu vel er fyrirtækið að fást við þætti sem teljast verða mikilvægir miðað við starfsemi fyrirtækisins (t.d. námufyrirtæki sem raskar náttúrunni spornar við jarðvegsraskinu, en er mögulega ekki að lágmarka mengun af flutningabílum sem flytja jarðveginn)?
  • Hefur fyrirtækið birt á vef sínum mælanleg markmið um samfélagsábyrgð?
  • Hefur fyrirtækið lagt mat á árangur sinn út frá settum markmiðum um samfélagsábyrgð?
  • Er fyrirtækið standa sig betur en önnur fyrirtæki í samfélagsábyrgð? (t.d. losar það umtalsvert minna af gróðurhúsalofttegundum en sambærileg fyrirtæki, ríkir meira jafnrétti, eða skarar það framúr á öðrum þáttum – ath hér er ekki endilega breyting milli ára)
  • Hefur fyrirtækið náð raunverulegum árangri í starfi sínu um samfélagsábyrgð?  ( Er breyting milli ára t.d. dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda eða aukið kynjajafnrétti)
  • Hefur fyrirtækið lagt sig fram við að vera fyrirmynd annarra fyrirtækja á sviði samfélagsábyrgðar, t.d. með því að hvetja önnur fyrirtæki í virðiskeðjunni eða með því að kynna eigin starf á sviði samfélagsábyrgðar opinberlega?
  • Eru skýr merki um að samfélagsábyrgð sé partur af fyrirtækjamenningunni, t.d. þannig að starfsmenn á öllum sviðum þekkja og starfa eftir stefnu þess um samfélagsábyrgð?

Creditinfo útvegaði lista yfir fyrirtæki sem standast valviðmiðin um Framúrskarandi fyrirtæki.

Dómnefndina skipuðu Þorsteinn Kári Jónsson, verkefnastjóri hjá Marel, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og Sæmundur Sæmundsson, báðir stjórnarmenn í Festu, auk Hönnu Valdísar Þorsteinsdóttur, sjálfstæðum sérfræðingi í samfélagsábyrgð, en hún var formaður dómnefndar.

Viðurkenninguna „Framúrskarandi ábyrgð” mun Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenda á verðlaunaathöfn Creditinfo í Hörpu miðvikudaginn 24. janúar 2018

 

Uppært:

Fyrirtækið sem hlaut viðurkenninguna Framúrskarandi ábyrgð 2018 er N1. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„Það var erfitt að gera upp á milli þriggja fyrirtækja sem starfa í ólíkum geirum en skara öll framúr þegar kemur að vinnu og árangri í SÁ. Fyrirtækið sem varð fyrir valinu gerir góð skil á stefnu sinni og upplýsingum um SÁ í ársskýrslu og á vefsíðu sinni. Megin áhersla er lögð á umhverfismál, ábyrga stjórnarhætti og jafnréttismál og hefur fyrirtækið náð góðum árangri á þeim sviðum og hefur þróað ýmis samfélagslega mikilvæg verkefni á síðustu árum sem tengjast áherslum þess. Góður árangur fyrirtækisins speglast í ánægðum viðskiptavinum og starfsmönnum.“

Einhverjir gætu velt því fyrir sér hvernig olíufélag geti fengið slíka viðurkenningu, frekar en fyrirtæki sem í eðli sínu vinnur að t.d. umhverfisvernd. Þá er vert að hafa í huga að samfélagið er þannig upp byggt að það þurfa einhverjir að selja okkur olíu og hjólbarða og ekki öll fyrirtæki séu í þeirri stöðu að hafa sjálfkrafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag með sínum rekstri. Það er því jákvætt að öll fyrirtæki geta og vilja sett sér stefnu um samfélagsábyrgð með því að kanna hvað er hægt að bæta í þeirra rekstri og hvernig þau geta lágmarkað sín neikvæðu áhrif og aukið þau jákvæðu, hvort sem þau selja olíu, grænmeti, fatnað eða lyf.

Fyrirtækið N1 hefur á síðustu tveimur tveimur árum unnið markvisst að innleiðingu á samfélagsábyrgð, svo sem með hnitmiðaðri GRI skýrslugerð, skýrum markmiðum og árangri í á þeim sviðum sem fyrirtækið hefur metið sem mikilvægust fyrir sig og hagsmunaaðila sína. Þau hafa einnig sett skýran fókus og fylgt  verkefnunum sínum vel eftir. Þrátt fyrir að vinna í geira sem hefur almennt neikvæð umhverfisáhrif þá vinnur fyrirtækið markvisst að nýjum umhverfisvænni lausnum svo sem að bjóða umhverfisvænni orkugjafa og stuðningi við rafbíla og reiðhjól. Fyrirtækið hefur fengið ISO 14001 umhverfisvottun fyrir þjónustustöðvar sínar.  Samkvæmt könnunum er ánægjustig viðskiptavina og starfsmanna hátt, og hefur farið hækkandi. Fyrirtækið er með gott jafnvægi í áherslum sínum á umhverfismál, samfélagsmál og ábyrga stjórnarhætti.

Við óskum N1 til hamingju með viðurkenninguna og óskum þeim áframhaldandi velgengni í að auka og stýra samfélagsábyrgð sinni.

Comments are closed.