Snjallræði – nýr samfélagshraðall

Snjallræði – nýr samfélagshraðall leitar að þremur öflugum bakhjörlum til þess að styðja við hraðalinn með fjármagni, ráðgjöf og beinum stuðningi við  þau verkefni sem valin verða inn í hraðalinn. Um er að ræða fyrsta viðskiptahraðal sinnar tegundar hér á landi þar sem áherslan er eingöngu á samfélagsverkefni og þann ávinning sem þau munu skapa fyrir samfélagið.

Blásið verður með formlegum hætti til Snjallræðis föstudaginn 27. apríl nk. við hátíðlega athöfn í Höfða og opnað fyrir umsóknir í hraðalinn. Vorið og haustið verður nýtt í kynningar, undirbúning og aðra vinnu við hraðalinn sem hefst síðan formlega á alþjóðlegri ráðstefnu þann 10. október og stendur yfir til 11. nóvember.

Samfélagshraðallinn fellur afar vel að framtíðarsýn Festu um aukna samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja. Af þeim sökum viljum við veita ykkur, félögum í Festu, forskot og aukið tækifæri til þess að tryggja ykkur þátttöku í verkefninu og stuðla með því að aukinni samfélagslegri nýsköpun hér á landi.

Kostnaðaráætlun verkefnisins miðar við að hver bakhjarl leggi til 2.500.000 kr. til verkefnisins. Hafi þitt fyrirtæki áhuga á að gerast bakhjarl viljum við vinsamlegast biðja ykkur um að hafa samband í síðasta lagi föstudaginn 6. apríl nk.

Festa, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Listaháskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Höfði friðarsetur standa að Snjallræði en framkvæmd verkefnisins er í höndum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Verkefninu er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir samfélagslegt frumkvöðlastarf.

Sex verkefni verða valin til þátttöku og fá þau vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Á sex vikna tímabili, í október og nóvember, fá  verkefnin aðgang að hópi leiðbeinenda og stuðningur verður í boði til að þróa hugmyndina áfram. Að lokum verða þrjú verkefni verðlaunuð með fjárframlagi og áframhaldandi stuðningi.

Allar nánari upplýsingar veitir forstöðumaður Höfða friðarseturs í farsíma 693 9064 eða í tölvupósti [email protected].

 

Örum tækninýjungum fylgja breytingar sem munu setja svip sinn á íslenskt samfélag í nánustu framtíð. Það skiptir sköpum að samfélagið verði í stakk búið til þess að takast á við nýjar áskoranir sem felast í breyttum veruleika. Með komu gervigreindar á íslenskan vinnumarkað mun þörfin fyrir  kapandi lausnir og nýjar nálganir aukast enn frekar, loftslagsbreytingar kalla á framsýni í neyslu- og framleiðsluháttum sem og samgöngu- og orkumálum og aukinn fjölbreytileiki íslensks samfélags felur í sér áður óþekktar áskoranir. Þörfin fyrir að skapa hér vettvang fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, sem stuðlar að jákvæðum breytingum fyrir samfélagið og hvetur til samstarfs milli hins opinbera og einkageirans, hefur því sjaldan verið ríkari.

Comments are closed.