Samfélagsskýrsla ársins – tilnefningar óskast

Samfélagsskýrsla ársins

 

Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð auglýsa eftir tillögum að fyrirtæki eða stofnun sem hlýtur viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins 2018.

Viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins hlýtur fyrirtæki eða stofnun sem birtir upplýsingar um samfélagsábyrgð sína með markvissum, vönduðum og nútímalegum hætti í skýrslum sem geta verið í formi vefsíðna, rafrænna skjala eða með annarri framsetningu sem hentar þeim sem áhuga hafa, s.s. fjárfestum, viðskiptavinum, samstarfsaðilum, yfirvöldum og/eða almenningi.

Með viðurkenningunni vilja Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta opinberlega og reglulega með vönduðum hætti upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja kemur þeim og samfélaginu að gagni.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi viðurkenning verður veitt. Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð hefur ásamt Stjórnvísi undanfarin ár haldið kynningarfundi á íslenskum samfélagsskýrslum og nú er markmiðið að stíga lengra og veita viðurkenningu fyrir vel útfærða birtingu á upplýsingum um samfélagsábyrgð. Viðskiptaráð hefur undanfarin ár stuðlað markvisst að bættum stjórnarháttum fyrirtækja og því er samstarf þessara þriggja félaga einkar viðeigandi.

Fresturinn til að senda inn tillögur rennur út þann 25. maí 2018. Dómnefnd skipuð fulltrúum félaganna þriggja metur allar tillögur sem berast og getur einnig byggt val sitt á eigin frumkvæði. Viðurkenningin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 5. júní 2018.


Tilnendu samfélagsskýrslu ársins hér

Comments are closed.