Ketill hættir í haust

 

Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð hefur ákveðið að láta af störfum fyrir félagið í haust. Leit að eftirmanni Ketils mun hefjast innan tíðar en hann mun sinna starfinu á meðan og aðstoða við að koma nýjum einstaklingi inn í starfið.

Ketill hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra síðastliðin fimm ár með góðum árangri. Um hundrað fyrirtæki eru nú þegar félagar í Festu auk þess sem á fjórða hundrað fyrirtæki taka þátt í verkefnum félagsins með formlegum hætti. Á síðasta ári stóð Festa fyrir um 40 atburðum tengdum samfélagsábyrgð fyrirtækja.

„Þetta hefur verið frábær uppbyggingartími fyrir samfélagsábyrgð og mikil forréttindi að hafa fengið að vinna með öllu því hæfa fólki sem setið hefur í stjórn Festu eða unnið að samfélagsábyrgð í fyrirtækjunum“, segir Ketill Berg. „Við erum kominn á þann stað að flest fyrirtæki átta sig á að vinna þarf markvisst að umhverfis- og samfélagsmálum ef skapa á sátt um starfsemi fyrirtækja og ná árangri í rekstri. Á næstu árum munu fleiri fyrirtæki taka samfélagsábyrgð sína enn fastari tökum og láta verkin tala. Festa mun áfram gegna lykilhlutverki í að styðja við fyrirtæki og veita þeim þjálfun og hvatningu. Það er hollt fyrir gróskumikið félag að breyta til og fá reglulega nýjan aðila til að leiða starfið. Hjá mér sjálfum er framtíðin óráðin. Ég er með ýmis verkefni sem mig langar að skoða. Ég vinn minn uppsagnarfrest og mun aðstoða stjórn Festu eins og þarf. Mér þykir ekki ólíklegt að ég muni áfram tengjast samfélagsábyrgð fyrirtækja með einum eða öðrum hætti.“

Festa, miðstöð um samfélags¬ábyrgð var stofnuð í október 2011. Hlutverk félagsins er að efla samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja, auka vitund í samfélaginu og hvetja til aðgerða á þessu sviði. Fjölmennasti viðburður ársins er Janúarráðstefna Festu sem haldin hefur verið í Hörpu. Stærstu einstöku verkefni félagsins eru Loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar og Ábyrg ferðaþjónusta, hvatningarverkefni sem Festa sér um framkvæmd á ásamt Íslenska ferðaklasanum í samstarfi við aðila ferðaþjónustunnar. Nán¬ari upplýsingar um starfsemi félagsins er að finna á vef Festu: www.festa¬sam¬felagsa¬byrgd.is.

Nánari upplýsingar veitir:  Hrönn Ingólfsdóttir, stjórnarformaður Festu í síma: 861 9680.

Comments are closed.