Stjórn Festu ályktar um að yfirvöld stuðli frekar að samfélagsábyrgð

Festa átti á dögunum fund með iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur þar sem Festa kynnti hugmyndir stjórnar um hvernig yfirvöld geta stutt við samfélagsábyrgð fyrirtækja. Stjórn Festu samþykki í kjölfarið svohljóðandi ályktun:

Reykjavík, 5. október 2015

Til: Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Efni: Yfirvöld stuðli að aukinni samfélagsábyrgð rekstraraðila

Á undanförum árum hefur sú hugmynd fest sig í sessi að fyrirtækjum beri að axla ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið. Auk þess hefur verið sýnt fram á að hún skilar rekstraraðilum aukinni hagkvæmni til lengri tíma. Samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur því í för með sér gagnkvæman ávinning fyrirtækja og samfélags.

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð vill leggja til við iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur að hún hvetji til aukinnar samfélagsábyrgðar íslenskra fyrirtækja og stofnanna. Hér eru fjórar tillögur þess efnis:

1. Skýr framtíðarsýn yfirvalda um fyrirtækin í samfélaginu

Festa vill hvetja ráðherra til að beita sér fyrir því að íslensk yfirvöld móti, í samtali við hagsmunaaðila, skýra framtíðarsýn um samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi. Þannig öðlast fyrirtækin skýr viðmið um hvernig þau geti stundað ábyrgan rekstur sem hefur jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið í landinu á sama tíma og það skilar fyrirtækjunum auknum rekstararlegum ávinningi.

2. Rekstrarumhverfi fyrirtækja hvetji til samfélagsábyrgðar

Það hefur sýnt sig að yfirvöld geta með ýmsum hætti sett upp einfalda og áhrifaríka hvata til þess að fyrirtæki sjái sér fjárhagslegan hag í að sýna ábyrgð frekar en að hafa neikvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Hvatt er til að í auknum mæli muni gjöld og skattar endurspegla raunkostnað, þ.m.t. ytri kostnað sem í dag er stofnað til af fyrirtækjum en fellur á samfélagið en ekki fyrirtækin. Dæmi um slíka hvata er tollaafsláttur til þeirra sem velja bíla sem ekki losa koltvísýring við notkun. Festa vill hvetja ráðherra til að beita með þessum hætti regluverkinu með gagnkvæman ávinning í huga fyrir viðskiptalífið og samfélagið.

3. Samræma upplýsingagjöf fyrirtækja við Evrópu og á Norðurlöndin

Festa fagnar því að yfirvöld hafi þegar lagt fram frumvarpsdrög um að framfylgja Evróputilskipun 2014-95 EU um að stórum fyrirtækjum verði gert skylt að birta árlega áhrif sín á umhverfið og samfélagið samhliða ársreikningum sínum. Festa vill hvetja ráðherra til að hafa samráð við fyrirtæki í Festu um að aðlaga tilskipunina að íslenskum veruleika. Líta má til þess hvernig Norðurlöndin hafa þróað slíka upplýsingagjöf undanfarin ár.

4. Samstarf um fræðslu til fyrirtækja, byrjum á ferðaþjónustunni

Festa leggur til að ráðuneytið og Festa hefji samstarf sem felst í fræðslu til fyrirtækja í landinu um tækifærin sem felast í því fyrir fyrirtæki og samfélagið að fyrirtækin leggi áherslu á samfélagsábyrgð. Reynsla Festu er að þörf er á fræðslu til fyrirtækja á þessu sviði. Festa hefur mótað vettvang og sérþekkingu sem nýst getur ráðuneytinu til að miðla til og skapa umræðu meðal stjórnenda og starfsmanna. Fókus Festu næstu misserin er á fyrirtæki í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Augljós þörf er á að fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu innleiði samfélagsábyrgð með markvissum hætti. Sameiginlegt kynningarátak iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Festu um þessi mál er líklegt til árangurs.

Festa er miðstöð um samfélagsábyrgð sem stofnuð var árið 2011 af sex fyrirtækjum: Íslandsbanka, Landsbankanum, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Símanum og Össuri. Fyrirtækjum sem gerast aðilar að Festu hefur fjölgað ört síðan 2013 og eru nú 60 talsins. Markmið Festu er að stuðla að vitundarvakningu meðal fyrirtækja og almennings um samfélagsábyrgð og styðja við fyrirtæki og stofnanir sem vilja innleiða ábyrga starfshætti með markvissum hætti. Festa er frjálst félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni.

Samþykkt á fundi stjórnar Festu þann 5. október 2015

Post a comment