Fyrirtæki og loftslagsmál

Fyrirtæki og loftslagsmál

Festa og Reykjavíkurborg bjóða fyrirtækjum að standa sameiginlega að yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum.

Stjórnendur margra íslenskra fyrirtækja hafa áttað sig á að loftslagsmál tengjast afkomu fyrirtækja með beinum hætti. Losun gróðurhúsalofttegunda stafar að miklu leyti af eldsneytisnotkun og urðun sorps. Minni eldsneytisnotkun kostar minna og minnkar mengun. Urðun sorps er einnig kostnaðarsöm. Fyrirtæki eru mörg hver farin að sjá beinan hag í að nýta hráefni betur, endurnýta og endurvinna úrgang. Markviss vinna í loftslagsmálum er því eitt skýrasta dæmið um gagnkvæman ávinning (e. Shared Value). Þar fer saman samfélagsábyrgð fyrirtækja og fjárhagslegur ávinningur fyrir þau.

Í byrjun desember næstkomandi mun 21. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fara fram í París (COP21). Þar verður Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC) samþykktur, með það að markmiði að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þjóðir heims hafa sett sér markmið um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og hefur Ísland ásamt ríkjum Evrópusambandsins og fleirum lýst því yfir að dregið verði úr losun um 40%.

Fyrirtæki um allan heim hafa í vaxandi mæli tekið skýra afstöðu í umhverfismálum og er nærtækt að nefna áskorun fyrirtækja frá 130 löndum þar sem kallað er eftir metnaðarfullum markmiðum á fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu. Mikilvægt er að borgir og fyrirtæki taki frumkvæði.

Á Íslandi glímum við ekki við mengandi rafmagnsframleiðslu eða húshitun líkt og margar þjóðir en eitt stærsta viðfangsefni okkar eru mengandi samgöngur og losun úrgangs.

Yfirlýsingin sem fyrirtæki í Reykjavík og Reykjavíkurborg munu skrifa undir verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember næstkomandi. Aðild að yfirlýsingunni jafngildir því að þátttakendur setji sér einföld markmið fyrir lok júní 2016 um að:

1. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

2. minnka myndun úrgangs, m.a. með því að nota minna af óendurvinnanlegu hráefni og umbúðum, endurvinna og endurnýta

3. mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

Fyrst um sinn verður aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi boðin þátttaka í verkefninu. Verkefnið er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin forsendum og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Þátttakendum mun einnig bjóðast fræðsla varðandi loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annarra fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri.

Nánari upplýsingar og skráning í verkefnið má finna hér. Við óskum eftir þátttöku framsækinna fyrirtækja í verkefninu.

Post a comment