Mikill áhugi fyrirtækja um loftslagsmál

Mikill áhugi fyrirtækja um loftslagsmál

Fjölmennt var á kynningarfundi sem Festa og Reykjavíkurborg héldu um sameiginlega yfirlýsingu fyrirtækja um markmið í loftslagsmálum.
Kynningarfundur um loftslagsmál sem haldinn var í Höfða í morgun var vel sóttur, en til hans var boðið fyrirtækjum sem vilja draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og sýna það í verki með afgerandi hætti.
Fyrirtækin munu skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau skuldbinda sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Þau munu einnig mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu mála. Skrifað verður undir þessa sameiginlegu yfirlýsingu um loftslagsmál í Höfða þann 16. nóvember.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð til kynningarfundarins, en Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, halda utan um verkefnið. Fyrst um sinn er aðildarfyrirtækjum Festu, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar og 300 stærstu fyrirtækjum á Íslandi boðin þátttaka í verkefninu.
Philippe O’Quin, sendiherra Frakka á Íslandi var gestur borgarstjóra á kynningarfundinum. Í ávarpi sínu hvatti hann fyrirtækin til að taka þátt því slík yfirlýsing og frumkvæði fyrirtækja væri í takt við það sem verið er að gera víða um heim.  Ísland gegni miklu hlutverki á ráðstefnunni og hvernig henni muni lykta því orkubúskapur Íslendinga, sem byggist svo mjög á endurnýjanlegum auðlindum, er til fyrirmyndar. Ráðgert er að afhenda yfirlýsingu fyrirtækjanna í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í París í desember. Sendiherrann sagði að slíkt frumkvæði hefði mikið táknrænt gildi.

Fyrirtæki setji sér markmið og miðli upplýsingum um árangur

Verkefnið er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin forsendum og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Fyrirtækjum sem taka þátt býðst einnig fræðsla um loftslagsmál, bæði hvernig nálgast á viðfangsefnið með praktískum hætti og reynslusögur annarra fyrirtækja af því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri.
Ketill B. Magnússon framkvæmdastjóri Festu kynnti loftslagsyfirlýsinguna og hvernig henni verður fylgt eftir. Fulltrúum þeirra fyrirtækja sem skrifa undir verður boðið að sækja vinnustofur og málþing. Áhersla verður lögð á gagnkvæma fræðslu og stuðning, en mörg fyrirtæki eru þegar búin að stíga mikilvæg skref í rétta átt sem Ketill sagði að áhugavert væri að miðla.  Í kynningu sinni var hann með dæmi um góðan árangur fyrirtækja í að draga úr umhverfissporum sínum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði áhuga fyrirtækjanna á verkefninu vera framar sínum björtustu vonum og hann hlakkaði til þess samstarfs sem framundan væri. Reykjavíkurborg gæti margt lært af samstarfinu en hefði jafnframt margt fram að færa.
Stefna Reykjavíkur í loftslagsmálum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% fyrir árið 2020.  Stefnan var fyrst sett fram árið 2009 og er nú hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig er unnið að stefnumörkun borgarinnar í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigins reksturs borgarinnar.

Listi áhugasamra fyrirtækja á eftir að lengjast

Fyrirtækin sem nú þegar hafa staðfest þátttöku sína eru:
  • Deloitte ehf.
  • EFLA verkfræðistofa
  • Egilsson ehf
  • Elkem Ísland
  • Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík
  • Háskóli Íslands
  • HB GRANDI
  • Hlaðbær-Colas hf
  • HS Orka hf.
  • Iceland Excursions Allrahanda ehf
  • Íslandshótel hf
  • Íslenska Gámafélagið ehf
  • Lín Design (Framsýnt fólk)
  • Nasdaq Iceland
  • Neyðarlínan ohf.
  • Oddi (í fyrirtækjaskrá: Oddi prentun og umbúðir ehf.)
  • Olíuverzlun Íslands hf
  • Podium ehf.
  • Ráðgjafarfyrirtækið Alta
  • Sjóvá
  • Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs.
  • Strætó bs
Frestur til að skrá fyrirtæki til þátttöku í verkefninu og undirritunar yfirlýsingar rennur út þann 10. nóvember. Skráning þátttöku er hér.

 

Post a comment