Hversu umhverfisvænir eru rafbílar?

Mörg íslensk fyrirtæki hafa að undanförnu velt fyrir sér að skipta bílaflota sínum yfir í rafbíla. Augljóst virðist að rafbílar eru umhverfisvænni en þeir sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti. Margir eru þó í vafa þegar dæmið er skoðað til enda. Fram hefur komið að framleiðslu rafbíla tvöfalt stærra vistspor en framleiðsla bensín- eða díselbíla. Heildarumhverfisáhrif bíla felst í framleiðslu þeirra, akstri og förgun og því er ekki nóg að bera saman eingöngu mengun af akstrinum.

Festa kannaði málið og talaði meðal annars við Stefán Gíslason, sérfræðing í umhverfismálum hjá fyrirtækinu Environice.

“Þetta mál með umhverfisvænleika rafbílanna er ekkert einfalt”, segir Stefán, “því að þar fást eðlilega mismunandi niðurstöður eftir því við hvað er miðað og hvaða þættir eru teknir með í reikninginn. Traustustu heimildir sem ég hef fundið benda þó til þess að rafbílar hafi mikla yfirburði við íslenskar aðstæður, jafnvel þótt miðað sé við frekar sparneytna bensín- eða dísilbíla. Framleiðsla rafbíla tekur til sín u.þ.b. tvöfalt meira af auðlindum en framleiðsla bensín- og dísilbíla, en þegar búið er að keyra rafbílinn um 13.000 km á íslensku rafmagni ætti hann að vera búinn að vinna upp þennan mun. Eftir það er allt í plús. Það er hægt að finna dæmi þar sem rafbílar koma verr út en sparneytnir bensín- eða dísilbílar. En þá þarf að keyra þá á rafmagni sem er eingöngu framleitt með kolabrennslu.”

Festa spurðist einnig fyrir meðal fyrirtækja sem sinnt hafa umhverfismálum og til svara varð Sigurpáll Ingibergsson, gæðastjóri ÁTVR, en fyrirtækið er eitt þeirra fjölmörgu sem skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar fyrir ári síðan og hefur í kjölfarið sett sér mælanleg loftslagsmarkmið.

“Kolefnisfótsporið er hærra við að framleiða rafbíl, líklega út af rafhlöðu, segir Sigurpáll, “hins vegar er reksturinn m.v. endurnýjanlega raforku mjög efnilegur og gerir peningaveski eiganda hamingjsamt og jörðina.”

Sigurpáll vísar í meðfylgjandi tölur frá Volkswagen bílaframleiðandanum máli sínu til stuðnings. Þar kemur fram að framleiðsla rafbíla skilji eftir stærra vistspor en eftir 13.000 km akstur fari bensín- og díselbílar að skilja eftir sig stærri vistspor og þegar heildarlíftími bílanna er skoðaður þá séu rafbílar mun umhverfisvænni.

Rafbílar menga minna

Rafbílar menga minna

 

Annar kostur eru bílar sem nota metan eldsneyti. Metan er fangað á Íslandi af urðunarstöðum áður en það sleppur út í andrúmsloftið sem skæð gróðurhúsalofttegund. Í dag fást bílar á Íslandi sem keyra á metan gasi og metan er selt á eldsneytisstöðvum. Metan hentar sérbútbúnum fólksbílum og er einnig notað á sorpbíla og stræsivagna.

Þegar fyrirtæki taka ákvörðun um framtíðarbílaflota sinn er því að mörgu að huga ef meta á umhverfisáhrif og heildarkostnað. Vert að kanna vel hver bifreiðaþörfin og notunin verður hjá hverju fyrirtæki. Þar þarf að taka mið af akstursdrægni raflhlaða rafbíla, stærð bílanna og hvort draga megi almennt úr bílanotkun með almenningssamgöngum, hjólreiðum eða betra akstursskipulagi.

Meðfylgjandi eru frekari gögn og upplýsingar um umhverfisáhrif bifreiða:

Pistill eftir Stefán Gíslason sem lesinn var í Samfélaginuð á Rás 1 23. maí 2016.

Umfjöllun Green Car Congress um rafbíla frá Volkswagen.

Rannsókn á vegum Great Plains Institute í Bandaríkjunum.

Reiknivélar Orkuseturs

Upplýsingar um metaneldsneyti á Íslandi

Rannsóknir Anders Nordelöf við Chalmers háskólann í Gautaborg.

Umföllun í Vancover Observer eftir Barry Saxifrage.

Comments are closed.