Hvaða heimsmarkmið styður þitt fyrirtæki?

Festa tekur undir með Sameinuðu þjóðunum og hvetur fyrirtæki til að styðja við Heimsmarkmiðin

Árið 2015 kynntu Sameinuðu þjóðirnar 17 markmið um sjálfbæra þróun í heiminum, sem í daglegu tali eru kölluð Heimsmarkmiðin. Þetta eru víðtæk markmið sem ætlað er að snerta allt mannkyn og vera leiðarvísir fyrir þjóðir, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um að búa okkur betri heim.

Slík markmið gætu virst vera of almenn eða alþjóðleg til að snerta starfsemi einstakra fyrirtækja á Íslandi. Svo er þó alls ekki. Segja má að öll fyrirtæki, á Íslandi og annars staðar, hafi þann tilgang og hljóti starfsleyfi frá samfélaginu til að framleiða vörur eða veita þjónustu sem ætlað er að leysa þarfir viðskiptavina sinna eða auðvelda þeim lífið. Ef svo er þá getum við haldið því fram að fyrirtæki hafi í raun almenn og víðtæk markmið þó svo þau starfi á afmörkuðu sviði. Hin 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna taka á ólíkum þáttum til að bæta heiminn og því geta fyrirtæki með ólík markmið og starfsemi fundið sér eitt eða fleiri Heimsmarkmið sem samræmast viðskiptastefnu þeirra.

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð tekur undir með Sameinuðu þjóðunum og hvetur fyrirtæki til að kynna sér Heimsmarkmiðin, velja sér þau markmið sem tengjast starfsemi þeirra og flétta þau inní stefnumörkun sína. Þegar á öllu er á botnin hvolft, og þrátt fyrir að mörg fyrirtæki starfi bara á Íslandi, þá tengist starfsemi langflestra fyrirtækja okkar sameiginlegu alþjóðlegu sýn um betri heim. Þetta á jafnt við um fyrirtæki í iðnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, verslun, orkuvinnslu eða annars konar starfsemi.

[Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu þann 20. júlí 2017]

Nánar má kynnast Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hér á vef Sameinuðu þjóðanna. Dæmi um íslensk fyrirtæki sem tekið hafa af skarið og byrjað að flétta Heimsmarkmiðin inn í viðskiptastefnu sína eru Landsvirkjun og ÁTVR.

Comments are closed.