Aldrei fleiri á Janúarráðstefnu Festu

Uppselt var á stærsta viðburð ársins þegar kemur að samfélagsábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja, Janúarráðstefnu Festu, sem haldin var undir yfirskriftinni „Ábyrgð er arðsöm” í Hörpu í dag.

Ráðstefnan var sótt af forstjórum margra stærstu fyrirtækja landsins, stjórnendum úr öllum áttum sem og sérfræðingum og öðrum áhugasömum.

Hófst ráðstefnan á þremur umræðustofum með áherslu á mannauðsmál, fjárfestingar og nýsköpun og innleiðingu sjálfbærni í viðskiptastefnu. Fullt var á allar umræðustofur og fjörugar umræður á hverri einustu.

Fanney Karlsdóttir, formaður Festu, opnaði dagskrá eftir hlé og fór yfir þróun samfélagsábyrgðar fyrirtækja á síðasta ári; „Sífellt fleiri fyrirtæki samþætta samfélagsábyrgð við kjarnastarfsemi sína – eins og við hjá hjá Festu höfum hvatt fyrirtæki og stofnanir til um árabil.”

Endaði ráðstefnan á fyrirlestrum tveggja stjórnenda frá alþjóðlegum fyrirtækjum, annar frá gosrisanum Coca Cola og hinn frá lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk sem hefur það að markmiði að útrýma sykursýki og offitu í heiminum.

„Við viljum stunda sjálfbær viðskipti. Okkar stefna er að búa til langtímavirði fyrir sjúklinga, lykilhagsmunaaðila sem og fyrirtækið sjálft.“ sagði Ole Kjerkegaard Nielsen, Global Director hjá lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk.

Per Hynne, upplýsingastjóri Coca Cola í Noregi, tilkynnti í fyrirlestri sínum í fyrsta sinn um metnaðarfullar skuldbindingar Coca Cola á Íslandi (CCEP) um að draga verulega úr sykurnotkun í vörum sínum. Um er að ræða mjög metnaðarfullt átak í að draga úr sykurnotkun og stuðla að bættri lýðheilsu hérlendis.

„Sjálfbærni er í innsta kjarna áætlanagerðar Coca Cola ” sagði Per Hynne á ráðstefnunni. „Við höfum sett okkur skýr og mælanleg markmið þegar kemur að umhverfisvernd, t.d. minni plastnotkun og endurvinnslu, jafnrétti innan fyrirtækisins og áhrifum á nærsamfélag – en við viljum ganga enn lengra og stefnum á það að minnka sykurneyslu og bæta lýðheilsu. Á Íslandi stefnum við á að nota 10% minni sykur í vörur okkar fyrir árið 2020.“ Sagði Per í fyrirlestri sínum.

Eins ólík og fyrirtækin Coca Cola og Novo Nordisk eru í eðli sínu, eiga þau það sameiginlegt að hugsa samfélagsábyrgð út frá meginþjónustu sinni, vörum og starfsskilyrðum. Bæði fyrirtækin hafa sett sér metnaðarfull markmið og fylgt þeim eftir af festu.

„Rannsóknir sýna að á heimsvísu eru fyrirtæki að leggja aukna áherslu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri sínum. Vitundarvakning hefur orðið á að samfélagsábyrgð fyrirtækja snýst ekki bara um að flokka rusl eða styrkja íþróttafélög, heldur ætti að vera hluti af kjarnastefnu og stefnumótun hvers einasta fyrirtækis á landinu. Það var mjög ánægjulegt að sjá þennan aukna áhuga skila sér í fleiri þátttakendum og virkari þátttöku á ráðstefnunni í ár.“ Sagði Ketill Berg Magnússon, framkvæmdarstjóri Festu eftir ráðstefnuna.

Myndir frá ráðstefnunni má finna á Facebook síðu Festu.

Glærum og myndböndum frá ráðstefnunni verður hlaðið upp á vef Festu á næstu dögum.

Comments are closed.