Góð Janúarráðstefna um árangur og ábyrg fyrirtæki

Janúarráðstefna Festu fór fram þann 28. janúar 2016 í Hörpu í samstarfi við Samtök atvinnulífsins. Yfirskriftin var „Árangur og ábyrg fyrirtæki“. Fjölmennt var á ráðstefnunni þar sem fram komu reynslumiklir erlendir fyrirlesarar, íslenskir forstjórar sem sögðu frá samfélagsábyrgð í sínum fyrirtækjum og haldnar voru þrjár málstofur um innleiðingu á samfélagsábyrgð.

Jákvæð þróun

Finnur Sveinsson

Finnur Sveinsson, formaður Festu, bauð ráðstefnugesti velkomna og sagði mikilvægt að fyrirtæki temdu sér að gera samfélagsábyrgð hluta af hugsunarhætti sínum.

Þorsteinn Víglundsson

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði dæmin orðin enn fleiri sem sína mikilvægi þess að fyrirtæki sýni samfélagsábyrgð. Nýleg loftslagsráðstefna í París og áhersla fyrirtækja í loftslagsmálum er þar engin undantekning en „loftslagsmál eru mikilvægasta áskorun okkar allra“.

 

Mads Øvlisen, aðalræðumaður ráðstefnunnar

Mads Øvlisen

Mads Øvlisen, fyrrum formaður stjórnar og forstjóri Novo Nordisk, byrjaði á að segja að samfélagsábyrgð snerist ekki bara um að gefa gjafir til góðgerðarmála. Fyrirtæki þurfa að innleiða langtímahugsun í starfsemi sína og að metnar séu afleiðingar á fólk sem verður fyrir áhrifum rekstursins. Mads sagði frá eigin reynslu sem forstjóri lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk hvernig langtímasjónarmið réðu ákvörðunum fremur en pressa frá ráðgjöfum á fjármálamörkuðum sem vildu sjá skjótan árangur. Mads sagði líka frá starfi sínu sem stjórnarmaður Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna við fyrirtæki um samfélagsábyrgð. Mads benti á að fjölmargar rannsóknir hafa komið fram að undanförnu sem sýna að fjárfestingar í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum og verkefnum borgar sig. [glærur]

 

Reynsla Hollendinga af samfélagsábyrgð – Bernedine Bos

Bernedine_Bos

Næst kynnti Bernedine Bos, frá MVA – miðstöð Hollands um samfélagsábyrgð hvernig hollensk fyrirtæki hafa unnið markvisst með samfélagsábyrgð undanfarin ár. Bernedine sýndi nokkur dæmi um hvernig sjálfbærnihugsun hefur skapað ný viðskiptatækifæri. Fjölmargar alþjóðlegar leiðbeiningar hafa verið settar fram um samfélagsábyrgð undanfarin ár og benti Bernedine á að ISO 26000 staðallinn um samfélagsábyrgð nýtist litlum og meðalstrórum fyrirtækjum vel. Leiðbeiningar OECD um alþjóðaviðskipti væru gagnlegar þeim sem eiga viðskipti víða um heim. [glærur]

 

Þrjár stuttar sögur af íslenskum fyrirtækjum

Sigrún Ragna Ólafsdóttir

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS sagði frá því hvernig VÍS hefur unnið að því að innleiða samfélagsábyrgð inn í starfsemi sína undan farin ár. Þetta hafi verið fróðlegur og gagnlegur leiðangur. VÍS hefði komist að því að margt af því sem þau voru þegar að gera flokkast undir samfélagsábyrgð. Forvarnir og tryggingar eru í eðli sínu samfélagslega mikilvægar, en það sé ekki nóg. Starfsmenn hefðu verið virkir í þessari vinnu og nú sjái þau betur hvert VÍS vill stefna og hverjar áskoranirnar eru. [glærur]

 

Grímur Sæmundsen

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sagði fyrirtækið vera að stíga sín fyrstu skref við að innleiða samfélagsábyrgð með skipulögðum hætti. Starfsemin býður uppá að ábyrg nýting á auðlindum sé aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en starfsfólkið sé dýrmætasta auðlindin. Grímur lýsti áformum Blá lónsins og hvernig hugað verður að því að stækkun og umgengni um svæðið allt verði í sátt við umhverfið og samfélagið. [glærur]

 

Björg Ingadóttir

Björg Ingadóttir, stofnandi og eigandi Spaksmannsspjara, sagði samfélagsábyrgð og sjálfbærni vera mikla áskorun fyrir fyrirtæki í fataiðnaði. Efnin sem notuð eru, aðferðirnar við að vinna þau og neysluhegðunin sem fylgir tískugeiranum hafi mörg umhverfisleg- og samfélagsleg vandamál í för með sér. Spaksmannsspjarir hafi frá upphafi reynt að leggja áherslu á að koma fram við umhverfið og fólk af nærgætni og oft og tíðum séu þau í því hlutverki að fræða og hvetja viðskiptavini sína til að sýna ábyrgari notkun á tískufatnaði. Björg sér fyrir sér að endurvinnsla hráefnis verði mun meiri, og jafnvel þannig að notendur geti endurnýtt flíkur sínar jafn auðveldlega og að fara með föt í hreinsun. [glærur]

 

Tengslamyndun og markaðstorg

Kaffihléið var notað til tengslamyndunar og á markaðstorgi gafst færi á að kynnast þjónustu fyrirtækja á sviði samfélagsábyrgðar. Þar sýndu vörur sínar og þjónustu fyrirtækin Bílaleiga Akureyrar, sem býður m.a. rafmagnsbíla, Capacent, sem býður ráðgjafaþjónustu við innleiðingu á samfélagsábyrgð, Changers, app sem hvetur til sjálfbærra samgangna, Gámaþjónustan með endurvinnslu- og sorplosun, Jóhann Ólafsson, með Osram, raforkusparandi lýsingu, Múlalundur með samfélagslega ábyrga framleiðslu og Suðvestur, sem m.a. aðstoðar við skipulagninu viðburða.

 

Hagnýtar málstofur

Ragna Sara Jónsdóttir

Í seinni hluta ráðstefnunnar voru þrjár málstofur um hagnýt málefni:
Fyrstu skrefin, málstofa í umsjón Rögnu Söru Jónsdóttur, varaformanns Festu. Ragna Sara sagði frá innleiðingu samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun og fékk til sín Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka og Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR sem sögðu frá fyrstu skrefunum sem þeirra fyrirtæki tóku þegar þau voru að hefja innleiðingu á samfélagsábyrgð hjá sér. [glærur]

 

Að virkja mannauðinn

Að virkja starfsmenn í þágu samfélagsábyrgðar var yfirskrift málstofu sem Fanney Karlsdóttir, frá Novomatic Lottery Solutions og stjórnarmaður í Festu hélt utan um. Hún fékk til sín Sæmund Sæmundsson, framkvæmdastjóra reksturs hjá Sjóvá og Hildi Grétarsdóttur, gæðastjóra Varðar, tryggingar. Þau sögðu frá því hvaða verkefni og aðferðir hafa verið notaðar til að virkja starfsmenn fyrirtækjanna við innleiðingu á samfélagsábyrgð. [glærur]

 

Loftslagsmál

Að vinna með loftslagsmál var yfirskrift vinnustofu sem Finnur Sveinsson, formaður Festu hélt utan um. Hann fékk til sín góða gesti:
Ellý Katrínu Guðmundsdóttur, borgarritara, sem starfaði hjá Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna síðasta haust við undirbúning Loftlagsráðstefnunnar í París. Halldór Björnsson, hópstjóra veðurs- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofunni. Birnu Sigrúnu Hallsdóttur, sérfræðing hjá Environice. [glærur]

 

Katrín Jakobsdóttir

Fundarstjóri var Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi menntamálaráðherra

Ljósmyndir af ráðstefnunni tók Anton Brink fyrir Festu

Post a comment