Hver er þín ábyrgð?

Grein eftir Freyju Steingrímsdóttur, verkefnastjóra Festu, birtist fyrst í sérblaði Fréttablaðsins um samfélagsábyrgð 7. mars 2018

Fyrirtæki huga í auknum mæli að samfélagsábyrgð og sjálfbærni í áætlanagerð og stefnumótun en þó eiga mörg fyrirtæki bæði hérlendis og úti í hinum stóra heimi langt í land.

Þótt mörg fyrirtæki reyni að skapa aukinn ávinning fyrir samfélag og umhverfi, er eðli málsins samkvæmt lokatakmark þeirra alltaf að skapa fjárhagslegan ávinning.

En til að skapa þennan fjárhagslega ávinning þurfa þau að þjóna neytendum.

Neytendur eru í auknum mæli farnir að gera þá kröfu að fyrirtækin sem þau versla við vöru eða þjónustu séu ábyrg gagnvart umhverfi og samfélagi, að þau fari vel með starfsfólkið sitt og viðskiptasiðferði sé til fyrirmyndar.

Fyrirtæki reyna því að þjóna neytendum sínum og eru í auknum mæli farin að flétta samfélagsábyrgð inn í stefnu sína og starfsemi og miðla henni síðan til neytenda til að skapa fjárhagslegan ávinning.

Við sem neytendur tökum nefnilega á hverjum degi fjöldamargar ákvarðanir sem hafa áhrif. Þær hafa áhrif á annað fólk, á umhverfið okkar og þar fram eftir götunum. Við ákveðum hvernig vörur við ætlum að versla, hvort þær komi í veigamiklum plastumbúðum og hvort við endurvinnum svo plastið. Við ákveðum hvort við verslum frá snyrtivörumerkjum sem að nota lifandi dýr í vöruþróun sinni, hvort við tökum einnota prjóna með asíska skyndibitanum, hvort við tökum bílinn í vinnuna, hvort við kaupum annan bíl fyrir heimilið, hvers konar bíl þá og svona er lengi hægt að telja.

Við þurfum öll að taka ábyrgð á eigin neyslu og skoða hvernig neyslumynstur okkar hefur áhrif á umhverfi og samfélag. Í orði gerum við miklar kröfur til fyrirtækja og þurfum að fylgja því eftir á borði. Reynum að versla við fyrirtæki sem standa sig vel gagnvart samfélagi og umhverfi eða þá þrýsta á fyrirtækin sem við verslum við að gera betur.

Mörg íslensk og erlend fyrirtæki eru farin að birta samfélagsábyrgðarskýrslur sínar á netinu og þannig hægt að forvitnast um stefnu þeirra. Einnig er hægt að skoða hvort íslensk fyrirtæki séu félagar í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, en félagar gangast undir siðareglur þar sem lofað er að stunda ábyrga starfsemi og gefa rétta mynd af samfélagsábyrgð sinni.

Comments are closed.