Samtaka um samfélagsábyrgð

Grein eftir Freyju Steingrímsdóttur, verkefnastjóra Festu, birtist fyrst í sérblaði Fréttablaðsins um samfélagsábyrgð 7. mars 2018

Tæplega 100 fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa gerst félagar í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Félagar Festu eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir. Stærsta sveitarfélag á landinu er félagi, ýmis stórfyrirtæki, ný sprotafyrirtæki, sjálfseignarfélög og smáfyrirtæki eru allt hluti af félagamynstri Festu og hafa því ákveðið að setja samfélagsábyrgð og sjálfbærni á oddinn.

Heiðarleiki og ábyrgð
Með því að ganga í Festu gangast fyrirtækin undir siðareglur samtakanna; félagar skulu leitast við að stunda ábyrga starfsemi og gefa rétta mynd af samfélagsábyrgð sinni. Hver og einn ber ábyrgð á því að starfa í anda gilda Festu af heiðarleika og stuðla að þekkingarmiðlun og samvinnu um samfélagsábyrgð.

Tengslanet og þekkingarmiðlun
Í hverjum mánuði hittast félagar Festu, einn frá hverju fyrirtæki, á tengslafundi þar sem eitt fyrirtæki eða ákveðin málefni eru tekin fyrir. Það er gríðarlega verðmætt að hafa aðgengi að svona samfélagi til að sækja þekkingu í og innblástur. Það er áhugavert að sjá að flest fyrirtæki sem að byrja að feta veginn í átt að meiri samfélagsábyrgð og sjálfbærni, sama hvers eðlis starfsemi þeirra er eða hversu marga starfsmenn þau telja, þá spyrja þau sig öll sömu spurninganna og lenda oft á sömu veggjum. Þá er einstaklega verðmætt að geta skipst á upplýsingum og reynslu til að komast hratt og örugglega yfir hindranir.

Víðtækt samstarf
Hugtakið samfélagsábyrgð hefur þróast frá því að snúast aðallega um góðgerðamál yfir í að snerta velflesta þætti í starfsemi fyrirtækja. Viðskiptasiðferði, jafnrétti, umhverfismál, vinnuvernd, mannréttindi og aðgerðir gegn spillingu eru allt lykilhugtök. Hlutverk Festu er að efla samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja, auka vitund í samfélaginu og hvetja til samstarfs og aðgerða á þessu sviði. Til þess að þjóna þessu hlutverki sem best tökum við þátt í ýmsum samstarfsverkefnum, t.a.m með Reykjavíkurborg, Ferðaklasanum og stjórnvöldum, og höldum auk þess fjölda viðburða og vinnustofa í hverjum mánuði tengda þessum málefnum sem að félagar í Festu fá boð á og afslátt af.

Framþróun og ný tækifæri
Okkar reynsla er sú að aukin áhersla á samfélagsábyrgð og sjálfbærni verið aflgjafi og uppspretta nýrra viðskiptatækifæra sem veitir fyrirtæki eða stofnun innblástur og kraft til að bæta árangur sinn. Samfélagsleg ábyrgð krefst oft endurskoðunar og breytinga á rekstri og þjónustu og fjöldamörg dæmi um að fyrirtæki skapi þannig ný verðmæti til hagsbóta bæði fyrir sig og samfélagið. Stofnuð hafa verið fyrirtæki sem fullnýta hráefni sem áður var hent, til að mynda í sjávarútvegi, landbúnaði stóriðju og orkugeiranum. Önnur fyrirtæki hafa þróað vörur og þjónustu til að leysa félagslegar eða umhverfislegar áskoranir, eins og hugbúnað sem eykur gagnsæi og öryggi, verslun sem býður vörur sem auðvelda neytendum að vera umhverfisvænir, ráðgjafafyrirtæki sem auðveldar jafnrétti á vinnustað. Sem dæmi þá blasa við okkur fjölmargar áskoranir um sjálfbærni í ferðaþjónustu, bæði tengdar umhverfinu og félagaslegum þáttum. Þessar áskoranir fela í sér viðskiptatækifæri þar sem einyrkjar og fyrirtæki koma fram með hagkvæmar og snjallar lausnir. Þannir er krafan um sjálfbærni hvati til nýsköpunar.

Miðlun af hinu góða
Það er ekki nóg að vera með góða stefnu í málefnum samfélagsábyrgðar og sjálfbærni heldur er einnig mikilvægt að miðla slíkri starfsemi bæði inn og út á við. Starfsfólk kann að meta það þegar fyrirtækin sem þeir starfa hjá standa sig vel og almenningur vill frekar kaupa þjónustu af fyrirtæki sem eru ábyrg. Þannig skapast gagnkvæmi ávinningurinn sem er svo mikilvægur. Festa reynir auk þess að leggja sitt af mörkun í slíkri miðlun og bendir á nýjungar, góðar hugmyndir og fyrirmyndir í samfélagsábyrgð á Íslandi. 

Hefur þitt fyrirtæki góð áhrif á samfélagið?
Að gerast félagi í Festu er heillaspor fyrir hvers kyns fyrirtæki. Hvort sem fyrirtækið þitt er að feta sín fyrstu spor í áætlana- og stefnugerð um samfélagsábyrgð eða er lengra komið þá er alltaf verðmæti fólgið í því að tengjast og læra af öðrum sem eru í svipuðum hugleiðingum og vinnu.

 

Comments are closed.