Félagslegt fótspor ferðaþjónustunnar

Um 400 manns frá öllum hornum ferðaþjónustunnar mættu á Ferðaþjónustudag SAF í Hörpu í gær.

Samfélagsábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja var í brennidepli á ráðstefnunni en yfirskrift hennar að þessu sinni var „Fótspor ferðaþjónustunnar.“

Á ráðstefnunni voru fjöldamörg áhugaverð erindi, t.a.m um efnahagsleg- og umhverfisáhrif ferðaþjónustu á Íslandi en framkvæmdarstjóri Festu, Ketill Berg Magnússon, hélt erindi þar sem hann lagði sérstaka áherslu á félagsleg áhrif og ábyrgð ferðaþjónustunnar á Íslandi. Sjá má ræðu Ketils hér að neðan og fyrirlesturinn í viðhengi.

„Stöldrum aðeins við og veltum því fyrir okkur hvað ferðaþjónustan á Íslandi er mögnuð. Þetta er ekki bara stærsta atvinnugreinin heldur sú sem er að móta hvað mest þetta samfélag sem við búum í.

Áður hafa landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn haft djúpstæð áhrif allt okkar mannlíf. Nú er það ferðaþjónustan. Hvert sem við lítum sjáum við þess merki, fjöldi mannsólks sem gengur um göturnar, umferðin um vegi landsins, úrvalið af veitingastöðum og afþreyingu, flugferðir sem standa okkur til boða til útlanda, innflutningur á vörum, ný fyrirtæki spretta upp og nýjir og ferskir menningarstraumar blása um stræti og sveitir.

Ímyndum okkur að við séum komin 50 ár fram í tímann. Árið er 2068 og við lítum til baka yfir farinn veg og sjáum hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur haft á okkar samfélag. Við munum skoða ár fyrir ár og við spyrjum okkur hvort við verðum stolt af þeim breytingum sem þá munu hafa orðið. Hefur ferðaþjónustan þróast í þá átt sem við helst höfðum vonast til? Er hún í samræmi við þá framtíðarsýn og þau gildi sem við höfðum þarna um vorið árið 2018? Eða höfðum við einhverja framtíðarsýn – og höfðum við einhver sameiginleg gildi?

Við munum auðvitað ekki verða sammála um allt, en hættan er sú að ef við höfum ekki sameiginlega sýn um hvernig samfélag við viljum að ferðaþjónustan styðji við og fyrir hvaða grunngildi við stöndum þá er líklegt að þær fjölbreyttu raddir og straumar sem keppast um miðist við lægstu samnefnarana og þær lausnir sem krefjast sem minnsta erfiðis til skamms tíma. En það er ekki víst að það sé það sem við viljum til lengri tíma?

Í dag erum við að skoða fótspor ferðaþjónustunnar útfrá þremur árangursmælikvörðum um sjálfbæran rekstur: samfélag, efnahag og umhverfi.

Við sjáum allt í kringum okkur breytt viðhorf til viðskiptalífsins. Áður fyrr var fjárhagsleg arðsemi fyrirtækja gjarnan það eina sem taldi en í dag þykir bæði eðlilegt og rétt að meta einnig áhrif fyrirtækja á náttúruna og þau samfélög sem þau starfa í. Viðskiptavinir, fjárfestar og yfirvöld fara fram á að fyrirtæki geri hvað þau geta til að stuðla að sjálfbærni, rétt eins og þjóðir heims og einstaklingarnir sem þar búa.

Forsvarsfólk framsækinna fyrirtækja hefur áttað sig á þessu og sér að þessir þrír mælikvarðar geta vel farið saman. Það er hægt ekki bara mögulegt, heldur einnig nauðsynlegt til lengri tíma litið að skila fjárhagslegum arði til eigenda á sama tíma og skapað er virði fyrir samfélagið og gengið um náttúruna af virðingu.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni allra aðila ferðaþjónustunnar sem framkvæmt er af Festu og Íslenska ferðaklasanum. Markmið verkefnisins er að hvetja og styðja við fyrirtæki sem vilja sýna samfélagsábyrgð í verki.

Verkefnið leggur til eftirfarandi sameiginlega framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu:

Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar

Ábyrg ferðaþjónusta býður fyrirtækjum að setja sér markmið um helstu áskoranir í sjálfbærni sem blasa við ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi:

  • Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi
  • Ganga vel um og virða náttúruna
  • Virða réttindi starfsfólks
  • Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagi

Öryggi ferðamanna er sameiginlegt verkefni okkar allra. Þar getum við lært heilmargt af sjávarútveginum. Með markvissri vinnu í mörg ár, ekki síst Slysavarnaskólans, ásamt hugarfarsbreytingu, kom loksins að því árið 2008 leið heilt ár án þess að nokkur manneskja dó á sjó í kringum landið. Á árum áður voru dauðaslys á sjó algeng, svo algeng að árið 1956 fórust 56 manns á sjó við íslandsstrendur og mun fleiri á öldum áður.

Við þurfum að hafa metnað til að koma á markvissri öryggismenningu á fjöllum, á vegum og á öllum stöðum sem gestir okkar heimsækja. Við eigum að keppast við og telja árin með stolti þegar enginn ferðamaður dó af slysförum á Íslandi.

Ferðaþjónustan hefur skapað fjölmörg verðmæt störf og tækifæri fyrir einstalinga. Lágmark er að fyrirtæki sjái til þess að kjarasamningar séu hér virtir.

Metnaðarfull fyrirtæki ganga lengra og vita að ef starfsfólk er ánægt og stolt af vinnuveitanda sínum, þá leggur það meira á sig og skapar meiri verðmæti í vinnunni.

Í ljós hefur komið að fyrirtæki sem innleiða ábyrga starfshætti sjá að ánægja og tryggð starfsfólks eykst til muna.

Öll fyrirtæki hafa áhrif á nærsamfélag sitt. Þau skapa í það minnsta störf og skatttekjur auk þess að bjóða fólki vörur og þjónustu. Fyrirtæki valda einnig öll einhverju raski. Sum valda beinu jarðraski, t.d. með hestaferðum eða gönguhópum í náttúrunni, eða með loftmengun eða sjónmengun. Önnur hafa áhrif á íbúa í nágrenninu, hvort sem það er með aukinni bílaumferð eða tikkið í ferðatöskum sem dregnar eru eftir gangstéttum og stigagöngum.

Framsækin fyrirtæki reyna að lágmarka neikvæð áhrif sín á nærsamfélag sitt, en ganga síðan lengra og styðja við nærsamfélag sitt með því að versla í heimabyggð eða taka þátt í uppbyggingu þess samfélags.

Í könnunn sem við hjá Festu og Ferðaklasanum, ásamt nemendurm í HR, erum að gera meðal þeirra 320 fyrirtækja sem skrifað hafa undir yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu kemur í ljós að 70% þeirra sem svöruðu telja að krafa ferðafólks um sjálbærni í greininni muni aukast á næstu árum.

Einnig kemur í ljós að yfir 90% þeirra fyrirtækja sem birt hafa markmið sín um Ábyrga ferðaþjónustu telja að starfsfólk þeirra sé ánægt með áherslur fyrirtækjanna um ábyrga ferðaþjónustu.

Ávinningurinn af marksissri þátttöku fyrirtækja í Ábyrgri ferðaþjónustu rennur bæði til fyrirtækisins og samfélagsins.

Samfélagið nýtur þess ef starfsfólk er ánægt og öruggt – á sama tíma batnar reksturinn, gott starfsfólk vill vinna þar og það leggur sig fram. Mannréttindi eru virt bæði beint og með því að gera kröfur um slíkt hjá samstarfsaðilum – á sama tíma minnkar áhætta í rekstri.

Nágrannar og nærsamfélagið er sátt við starfsemina  –  nærsamfélagði styður við starfsemina og mælir með henni. Viðskiptavinir eru öryggir og komið er fram við þá af háttvísi – það leiðir til góðs orðspors og trausts.

Vert er að hafa í huga að innleiðing á sjálfbærni í fyrirtæki er vegferð. Það er ekki hægt að stökkva á þetta verkefni og klára það í eitt skipti fyrir öll. Best er að líta á þetta sem langtímaverkefni þar sem unnið er að stöðugum endurbótum.

1. Fyrsta skrefið er að skrifa undir og ákveða að innleiða ábyrga starfshætti.
2. Næsta er að skoða reksturinn og sjá hvað núþegar er verið að gera vel og hvar tækifæri eru til að gera betur. Þetta getur tekið tíma – og það kemur einmitt í ljós í könnun okkar að tímaskortur er helsta ástæða þess að fyrirtæki hafa ekki birt markmið sín um ábyrga ferðaþjónustu.
3. Þvínæst eru sett markmið um um valda þætti – þar sem skóinn kreppir mest og þar sem skiptir mestu máli eðli starfseminnar samkvæmt.
4. Þá er hægt að mæla árangurinn með þremur mælikvörðum sjálfbærni: efnahagslegum áhrifum, samfélagsáhrigum og umhverfisáhrifum.
5. Að lokum er mikilvægt að segja starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum hagaðilum frá því hvernig gengur. Árið 2016 voru samþykkt ný ársreikningalög sem skylda stór fyrirtæki til að birta mælingar á áhrifunum sem þau hafa á umhverfið og samfélagið.

Síðan hefst næsti hringur og fyrirtækið endurskoðar markmið sín með reglulegum hætti.

Með verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta bjóða Festa og Farðaklasinn uppá fræðslu og stuðning fyrir fyrirtæki sem vilja ná árangri. Boðið er uppá vinnustofur og fundi, sem öllum er streymt um netið, auk þess sem á vefnum hjá okkur má finna fjölmörg hagnýt tól sem einfaldar fyrirtækjum verkefnið.

Við hlökkum til að vinna áfram með framsæknum fyrirtækjum og yfirvöldum að áframhaldandi þróun á verkefninu Ábyrg ferðaþjónsta. Við erum sannfærð um að það mun skila ávinningi til fyrirtækja og samfélagsins.

Takk fyrir og gangi ykkur vel!“

Comments are closed.