Ísland bezt í heimi?

Grein eftir Freyju Steingrímsdóttur, verkefnastjóra Festu, birtist fyrst í sérblaði Fréttablaðsins um samfélagsábyrgð 7. mars 2018.

Á Íslandi eru nær 20.000 fyrirtæki (SA 2017). Flest þeirra eru af miðlungsstærð eða smærri en t.d. borga fyrirtæki með 9 starfsmenn eða færri yfir 37.000 íslendingum laun upp á meira en 140 milljarða.

Þrátt fyrir að flestir íslendingar vinni fyrir eða jafnvel eigi fyrirtæki þá telur einungis um helmingur Íslendinga fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið en jákvæð (Festa og Gallup 2014 og 2016). Nágrannar okkar í Danmörku hafa miklu meiri trú á fyrirtækjum í landinu og meira að segja Írar, sem lentu jafn illa í efnahagshruninu og við, telja almennt fyrirtæki hafa jákvæðari áhrif á samfélagið en neikvæð. 

En afhverju erum við neikvæðari en löndin sem við berum okkur helst saman við?

Áhrif og ábyrgð
Fyrirtæki, stór og smá, eiga það sameiginlegt að hafa ákveðin áhrif. Þau hafa bæði áhrif inn á við, til að mynda á starfsfólk, og út á við á samfélag og umhverfi. Áhrifin geta verið misjöfn eftir stærð og starfsemi, en áhrifum fylgir alltaf ábyrgð.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja felur í sér að fyrirtækið axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem ákvarðanir og athafnir þess hafa á bæði náttúruna og samfélagið þar sem þar þarfar. Þannig ber fyrirtækið ábyrgð á þeirri mengun sem starfsemi þess veldur og fyrirtækið ber ábyrgð á því að starfsfólk þess og undirverktaka þess fái notið lögbundinna réttinda.
 Áður fyrr var algengt að samfélagsábyrgð fyrirtækja snerist aðallega um góðgerðarmál, t.a.m. styrki til íþróttafélaga en í dag snertir það velflesta þætti í starfsemi fyrirtækja. Viðskiptasiðferði, umhverfismál, vinnuvernd, jafnrétti og aðgerðir gegn spillingu eru lykilhugtök þegar kemur að samfélagsábyrgð.

Fyrirtæki þurfa að taka afstöðu


Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki setja sér opin og mælanleg markmið tengd samfélagsábyrgð. Til að lifa af í viðskiptaumhverfi nútímans þurfa fyrirtæki nefnilega að taka afstöðu, gagnvart stjórnarháttum, gagnvart samfélagi og umhverfi.

Neytendur gera sífellt meiri kröfur til fyrirtækja sem bjóða þeim vörur, margir huga t.d. að því hvort að umbúðir séu endurvinnanlegar, hvort að hugað sé að velferð dýra við gerð vörunnar og að vel sé farið með starfsfólk. Fólk í atvinnuleit leitar sér í auknum mæli að atvinnurekendum sem er annt um fólk og umhverfi jafnt sem hagnað. Sífellt fleiri fjárfestar huga einnig að samfélagsábyrgðarstefnu fyrirtækja þegar taka á ákvörðun með fjármagn

Þannig er ekki einungis mikilvægt að fyrirtæki séu samfélagslega ábyrgð, þau verða líka að miðla starfi sínu inn á við til starfsfólks, til framtíðarstarfsfólks, fjárfesta og almennings, hérlendis og erlendis til að samfélagsábyrgðarstefnan hafi tilætluð áhrif.

Ábyrgð stjórnvalda
Þótt ábyrgð fyrirtækja sé rík þá geta stjórnvöld gert ýmislegt til að styðja við þau. Lagaumgjörð þarf að styðja við stefnumótun fyrirtækja um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og þarf að vinna í virku samráði við atvinnulífið.
Markmið Festu er að íslensk fyrirtæki verði í náinni framtíð þekkt fyrir samfélagsábyrgð sína. Því markmiði verður einungis náð ef að vinnum öll saman; stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki, starfsfólk og neytendur.

Comments are closed.