Við viljum sjá verkin tala – viðtal við framkvæmdarstjóra Festu

Viðtal við Ketil Berg Magnússon, framkvæmdarstjóra Festu, sem birtist fyrst í sérblaði Fréttablaðsins um samfélagsábyrgð 7. mars 2018.

„Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snýst um að þau axli ábyrgð á öllum sínum ákvörðunum og athöfnum sem hafa áhrif á umhverfi og samfélag,“ útskýrir Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Ketill segir hugtökin samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra þróun tengjast órjúfanlegum böndum.

„Við sem búum á jörðinni náum kannski aldrei að verða alveg sjálfbær í vistfræðilegum skilningi, en sjálfbærni snýst um að okkar kynslóð noti auðlindir og gæði jarðar án þess að ganga á möguleika komandi kynslóða á að gera það líka. Til einföldunar má því segja að samfélagsábyrgð fyrirtækja sé hagnýt leið fyrir þau að stuðla að sjálfbærni.“

Umhverfis- og félagsleg áhrif
Festa var stofnuð árið 2011 af sex fyrirtækjum: Símanum, Rio Tinto Alcan, Landsbankanum, Landsvirkjun, Íslandsbanka og Össur. Í dag eru um hundrað fyrirtæki aðilar að Festu.

„Markmið Festu er að auka vitund um samfélagsábyrgð í samfélaginu og styðja við fyrirtæki sem vilja innleiða ábyrga starfshætti,“ upplýsir Ketill. „Við stöndum fyrir margskonar fræðsluviðburðum sem tengjast samfélagsábyrgð, miðlum upplýsingum í fjölmiðlum og á samfélagmiðlum, og hvetjum til samstarfs við yfirvöld og félagasamtök.“

Samfélagsábyrgð sé regnhlífahugtak sem nái utan um umhverfis- og félagsleg mál.

„Umhverfismálin varða loftslagsmál, flokkun á rusli og rask á náttúrunni, en félagslegu málin lúta að því hvernig fyrirtæki huga að starfsfólki sínu og mannréttindum í starfssamningum. Séu fyrirtæki með starfsemi í mörgum löndum, huga þau þá að keðjuábyrgð sinni þegar þau kaupa þjónustu af undirverktökum og vinnuaðstöðu fólksins sem hana vinnur?“ spyr Ketill til umhugsunar.

Hann segir félagslega samfélagsábyrgð einnig snúast um samfélagsþátttöku, það að styðja við góð málefni og hafa góð áhrif á nærsamfélagið.

„Fjórði félagslegi þátturinn snýst um að fyrirtækin framleiði ábyrga vöru og veiti ábyrga þjónustu, í þeim skilningi að vörurnar séu hættulausar og innihaldi það sem þær eiga að innihalda. Það sama á við um þjónustu fyrirtækja; hún þarf að vera byggð á grundvallar siðferðilegum viðmiðum eins og virðingu fyrir persónum, persónuvernd og siðferðislega réttum viðskiptaháttum,“ segir Ketill.

Segja má að samfélagsábyrgð fyrirtækja sé huglæg þar til hún er tengd við hagnýt, dagleg störf í rekstri.

„Samfélagsábyrgð hefur ekki einungis jákvæð áhrif á samfélagið heldur líka fyrirtækin sjálf. Í ljós hefur komið að fyrirtæki sem sinna samfélagsábyrgð vel gengur betur fjárhagslega vegna þess að með því að huga að umhverfismálum stunda þau minni sóun, eyða minna í eldsneyti og fara betur með peninga.“

Ísland með gott orð á sér

Þegar litið er á fjölda íslenskra fyrirtækja, sem vinna að alvöru að samfélagsábyrgð, eru þau tiltölulega fá í samanburði við hin Norðurlöndin.

„Íslendingar hafa verið svolítið seinir að taka við sér en um leið og þeir hafa áttað sig á því að samfélagsábyrgð sé sniðug hugmynd hafa þeir unnið að henni af miklu kappi og séð tækifærin,“ segir Ketill og bendir á að á sumum sviðum séu Íslendingar langt komnir.

„Ísland hefur það orð á sér að hér sé sjálfbærni í hávegum höfð. Við erum fræg um allan heim fyrir að nota endurnýtanlega orku og hita hús okkar með þeim hætti. Við höfum líka tekið kerfislegar ákvarðanir eins og fiskveiðistjórnunarkerfið sem gengur út á að geta haldið fiskveiðum áfram án þess að ganga  um of á stofninn. Kvótakerfið miðar að sjálfbærni þótt deilt sé um hvernig úthlutað sé úr því og skiptar skoðanir um réttlæti þess hverjir fái að veiða. En þrátt fyrir þessi góðu fordæmi huga íslensk fyrirtæki og einstaklingar ekki nægilega að náttúrunni og ganga út frá henni sem gefinni. Við umgöngumst náttúruna því miður af minni virðingu en við ættum að gera, mögulega vegna þess að við vitum að við eigum gnótt náttúruauðlinda.“

Ábyrg ferðaþjónusta

Festa hefur staðið fyrir mörgum hvatningarverkefnum. Í janúar 2017 hófu Festa og Íslenski ferðaklasinn samstarf við alla aðila í ferðaþjónustu með verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

„Við stöndum frammi fyrir gríðarmiklum áskorunum í ferðaþjónustu,“ segir Ketill um tilurð verkefnisins. „Ferðamönnum fjölgar og ágangur á náttúruna er mikill. Við höfum því miklar áhyggjur af því að þungur ferðamannastraumurinn valdi neikvæðum áhrifum á umhverfið. Því reynir á innviðina, fyrirtækin og okkur sem gestgjafa að hjálpa ferðamönnum að vera umhverfisvænir,“ segir Ketill.

Með verkefninu var fyrirtækjum boðið að skrifa undir yfirlýsingu um markmið sín í ábyrgri ferðaþjónustu.

„Við höfðum gert okkur vonir um að fimmtíu fyrirtæki tækju þátt en þegar upp var staðið skrifuðu 260 fyrirtæki undir yfirlýsinguna og nú hafa 320 fyrirtæki gert hið sama. Þessu höfum við svo fylgt eftir með námskeiðum og fræðslu til að hjálpa fyrirtækjunum að framfylgja markmiðum sínum, um þýðingu þess að vera ábyrgt fyrirtæki og hvernig við náum árangri í umhverfismálum, öryggismálum, réttindum starfsfólks og áhrifum á nærsamfélagið,“ upplýsir Ketill.

Festa setur gjarnan á laggirnar verkefni sem felast í því að hvetja fyrirtæki til aðgerða í samfélagsábyrgð. Þar má nefna verkefnið um loftslagsmarkmið Festu og Reykjavíkurborgar.

„Í aðdraganda Parísarfundarins um loftslagsmál árið 2015 buðu Festa og Reykjavíkurborg fyrirtækjum að setja sér markmið um loftslagsmál. Þá komu 104 forstjórar í Höfða til að skrifa undir loforð um þrennt: að draga úr losun gróðurhúsaloftslagstegunda, að minnka losun úrgangs og að mæla árangurinn og birta niðurstöðuna reglulega. Engin lagaleg krafa er um að fyrirtækin framfylgi þessum loforðum en það sýndi sig að þau vildu heilshugar taka þátt í verkefninu,“ segir Ketill.

Orð eru til alls fyrst
Mikil vakning er nú meðal íslenskra fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð.

„Fyrirtæki eru í æ meira mæli að átta sig á að þau geti haft verulega jákvæð áhrif. Við horfum því fram á við og veltum fyrir okkur hvernig við getum unnið best á hinum ýmsu sviðum, í sjávarútvegi, byggingariðnaði, fjárfestingum og nýsköpun, til að koma þessari hugsun í fyrirtækjarekstur þannig að þau geti haft jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið,“ segir Ketill.

Miklu skipti líka samtal við yfirvöld.

„Vitundarvakningin er mikil en við viljum sjá fleiri aðgerðir og raunverulegan árangur. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett sér metnaðarfull markmið sem tengjast sjálfbærni og samfélagsábyrgð í stjórnarsáttmálanum og alveg skýrt að ríkisstjórnin vill ná árangri í umhverfismálum og ferðaþjónustu. Við bíðum því spennt eftir raunverulegum aðgerðum þar sem hægt verður að mæla árangurinn og vonumst til að þetta verði ekki bara spjall heldur eitthvað sem við getum orðið stolt af að ná árangri af,“ segir Ketill.

Loftslagsmálin séu gott dæmi um hvernig sveitarfélög og yfirvöld geti unnið saman í gegnum Festu.

„Saman geta þau skapað hvata sem hentar fyrirtækjum til að verða umhverfisvæn, til dæmis með afslætti á rafmagnsbílum, sem gerði líklegra fyrir fyrirtæki að leggja sitt af mörkum,“ segir Ketill.

Eitt af gildum Festu sé að deila þekkingu og upplýsingum.

„Það eru allir í sama liði þegar kemur að samfélagsábyrgð. Fyrirtæki og einstaklingar hafa öll sama markmið; að stuðla að aukinni sjálfbærni á Íslandi. Um það þarf að vera gott samstarf en ekki skotgrafarhernaður. Festa er opinn vettvangur til verksins og við hvetjum fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir til að gerast aðilar að Festu því þannig getum við unnið þetta saman.“

Samstarf sé eitt af grunnstólpunum í starfi Festu.

„Orð eru til alls fyrst en verkin tala. Árið 2016 voru sett lög sem skylda stórfyrirtæki að gera árlega grein fyrir árangri sínum í samfélagsábyrgð, en það eru upplýsingar um umhverfis- og samfélagsmál. Nú virðist vera mikill samhljómur í samfélaginu, en eitt er að setja fram stefnu og fallegar yfirlýsingar, og annað að sýna fram á efndir með skýrum hætti.“

Comments are closed.