Loftslagsmarkmið fyrirtækja og stofnanna

Festa og Reykajvíkurborg Loftslagsmál

Fyrirtækin 104 sem undirrituðu loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar birta stöðu loftslagsmála.

Í nóvember 2015 undirritaði forsvarsfólk 104 fyrirtækja og stofnana á Íslandi neðangreinda yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um markmið í loftslagsmálum. Það var stór áfangi og ánægjulegt að þátttakan var svona góð enda vakti verkefnið athygli á alþjóðlegum vettvangi og var kynnt á Parísarráðstefnunni um loftslagsmál (COP21) í desember síðastliðnum.

Nú þegar stuðningsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar við fyrirtækin er að ljúka eru hér birtar hagnýtar upplýsingar um loftslagsmarkmið:

I. Loftslagsyfirlýsingin til uppryfjunar
II. Hagnýt tól og vefgátt
III. Málþing í haust og áframhaldandi stuðningur Festu og Reykjavíkurborgar

I. Loftslagsyfirlýsingin til uppryfjunar

Hér er yfirlýsingin sem þú ásamt 103 öðru forsvarsfólki undirrituðuð.

Yfirlýsing um loftslagsmál

Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.

Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum.

Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.

Á Íslandi er helsta áskorunin mengandi samgöngur og losun úrgangs. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:

1. Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

2. Minnka myndun úrgangs

3. Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

Undirritað í Reykjavík 16. nóvember 2015

II. Hagnýt tól og vefgátt

Festa og Reykjavíkurborg hafa fylgt verkefninu eftir og stutt fyrirtækin sem skrifuðu undir með því að bjóða þeim öllum að taka þátt í fræðsludagskrá í vetur um loftslagsmál með það að markmiði að þau gætu kynnt stöðu loftslagsmála sinna fyrir 30. júní 2016. Haldnir hafa verið 12 fræðsluviðburðir þar sem sérfræðingar um loftslagsmál hafa komið með hagnýtan fróðleik og fyrirtækin hafa borið saman bækur sínar um verkefnið.

Meginhugsunin með yfirlýsingunni var að fyrirtækin sjálf myndu finna sínar leiðir til að uppfylla þessi markmið og með hvaða hætti þær leiðir yrðu settar fram. Fljótlega kom þó í ljós að fyrirtækin óskuðu eftir einhverjum ramma og varð niðurstaðan sú að setja fram samræmda mælikvarða.

Með þessu bréfi viljum við kynna samræmd viðmið og sniðmát sem hópur sérfræðinga á vegum fyrirtækjanna hefur sett saman til að auðvelda mælingar og markmiðasetningu um losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig viljum við segja frá því að fyrirtækið Klappir Green Solutions er að hanna vefgátt þar sem fyrirtæki geta sett inn og haldið utan um upplýsingar um loftslagsmál sín á samræmdan og einfaldan máta. Vefgáttin hefur verið unnin í samstarfi við fyrirtækin í fræðsludagskrá Festu og Reykjavíkurborgar og er þátttakendum að kostnaðarlausu að setja inn stöðuna um losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og úrgangs.

1. Nauðsynlegt þótti að samræma viðmið við losun GHL og úrgangs svo íslensk fyrirtæki gætu notað mælingar og reiknistuðla sambærilegar við þær sem notaðar eru víða um heim.

2. Mælingar og markmiðasetning um að draga úr losun GHL og úrgangs var gerð auðveldari með sameiginlegu mælitæki í formi Excel skjals. Þar koma fram leiðbeiningar, reiknivélar, stuðlar og innsláttarreitir til að fyrirtækin geti haldið utan um vinnu sína á þessu sviði.

3. Framsetning og birting loftslagsmarkmiðanna frá Excel mælitækinu var svo gerð vefræn með sameiginlegri vefgátt um loftslagsmál. Það er fyrirtækið Klappir Green Solutions (KGS) sem unnið hefur vefgáttina í samstarfi við fyrirtækin í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar.og er notkun hennar fyrirtækjunum að kostnaðarlausu og aðgengileg á vef Festu og vef KGS.

Viðmiðin, sniðmátið og vefgáttina má nálgast hér á vef Festu.

III. Málþing í haust og áframhaldandi stuðningur Festu og Reykjavíkurborgar

Við viljum þakka öllum þeim sérfræðingum og fyrirtækjum sem stutt hafa við verkefnið hingað til. Það er í raun stórmerkilegt að svo mörg fyrirtæki skuli hafa sameinast um svo metnaðarfullt verkefni um loftslagsmál sem Loftslagsyfirlýsing Festu og Reykjavíkurborgar er. Fyrirtæki þitt sýnir með þátttöku sinni framsýni og samfélagslega ábyrgð til þess að sporna við gróðurhúsaáhrifum, einni mestu áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Næstu skref í verkefninu eru þau að 30. júní munu fyrirtækin hafa sett fram stöðu sína um loftslagsmál og þann 7. september nk. mun Festa halda málþing þar sem sagt verður frá verkefninu opinberlega og nokkur fyrirtæki kynna sín markið um loftslagsmál.

Bæði Festa og Reykjavíkurborg hafa síðan ákveðið að styðja áfram við fyrirtækin og bjóða upp á fræðslu og hugmyndafundi næsta vetur. Loftslagsmál fyrirtækja eru enda lærdómsverkefni til framtíðar sem best er að vinna jafnt og reglulega í stað skyndilausna.

Post a comment